Katrín verður fyrirliði á Algarve
Kvennalandsliðið er komið til Algarve þar sem liðið leikur fyrsta leik sinn á mótinu á morgun. Leikið verður við Ítalíu og hefst leikurinn kl. 18:00. Þetta er fyrsti landsleikur Sigurðar Ragnars sem landsliðsþjálfara og hefur hann ákveðið að Katrín Jónsdóttir verður fyrirliði liðsins á mótinu.
Liðið verður við æfingar í dag og eftir seinni æfinguna verður byrjunarlið morgundagsins tilkynnt. Aðstæður eru allar hinar ágætustu hjá hópnum og létu fararstjórar einstaklega vel að veðrinu á staðnum.
Mótherjar morgundagsins eru Ítalir en landslið þeirra var í 13. sæti styrkleikalista kvenna hjá FIFA, síðast þegar hann var birtur. Íslenska liðið skipaði 21. sætið. Næsti listi verður birtur 16. mars næstkomandi.
Þjóðirnar hafa fjórum sinnum mæst hjá A-landsliði kvenna og eru hnífjafnar eftir þær viðureignir, hafa unnið hvorn sinn leikinn og tvisvar gert jafntefli. Markatalan er jöfn, 2-2. Það má því búast við hörkuleik á morgun í þessum fyrsta leik Íslands á Algarve Cup 2007.
Mynd: Katrín Jónsdóttir er hér ásamt Kjartani Daníelssyni, formanni landsliðsnefndar kvenna, er hún fékk viðurkenningu fyrir 50 landsleiki.