Ávarp formanns á 61. ársþingi KSÍ
Eggert Magnússon ávarpaði 61. ársþing KSÍ í morgun, í síðasta sinn sem formaður KSÍ. Eggert fór m.a. yfir þær breytingar sem orðið hafa í starfinu og stöðu mála í knattspyrnunni í dag.
Ávarp Formanns KSÍ
Ágætu gestir,
góðir þingfulltrúar,
kæru félagar.
Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á 61. ársþing KSÍ. Árið 2007 er mikið hátíðarár fyrir okkur öll þar sem Knattspyrnusamband Íslands fagnar 60 ára afmæli á árinu.
Enn á ný kemur knattspyrnuhreyfingin saman til að móta stefnu og taka mikilvægar ákvarðanir um knattspyrnuna á Íslandi. Það er ávallt tilhlökkun þegar ársþing nálgast að eiga í vændum að hitta alla félagana í hreyfingunni og fá tækifæri til að ræða við þá um okkar sameiginlega áhugamál, knattspyrnuna.
Ágætu þingfulltrúar,
Það hefur ávallt verið mikil reisn yfir knattspyrnuþingum. Þar hefur farið fram virk og lífleg umræða um málin, stundum hafa orðið hressileg átök sem endað hafa með málamiðlun, en alltaf hefur markmið allra þingfulltrúa verið skýrt – að gera knattspyrnuna á Íslandi sterkari til framtíðar.
Þó að við séum ekki alltaf sammála um málin og deilum um áherslur, þá sameinumst við öll um það takmark okkar að gera knattspyrnuna á Íslandi betri og byggja áfram upp sterka knattspyrnuhreyfingu.
Ársþing KSÍ er ekki bara umfjöllun um lög og reglur og þá starfsemi sem fer fram innan vébanda sambandsins. Það er vettvangur skoðanaskipta. Menn kynnast, heyra sjónarmið annarra víðs vegar af landinu og eiga auðveldara með að starfa saman í hreyfingunni eftir að hafa kynnst og skipst á skoðunum. Ef til vill er þetta ekki síður mikilvægt en þingstörfin sjálf. Þetta hefur verið hinn sívirki og lifandi vettvangur knattspyrnuþinga í sex áratugi.
Á ársþingum förum við yfir þá hluti sem við höfum verið að vinna að á yfirstandandi ári og mótum jafnframt stefnu knattspyrnuhreyfingarinnar fyrir næsta ár og framtíðina. Að afloknu keppnistímabili setjast menn niður og gera upp árangurinn, fara yfir það sem miður hefur farið og einnig það sem vel hefur til tekist. Við metum árangurinn miðað við sett markmið, endurskoðum leikaðferðir og skoðum lokaniðurstöður.
Eitt af því sem gerir knattspyrnuna svo töfrandi er að það er enginn lokaáfangi. Framundan er ávallt nýtt keppnistímabil, nýtt mót, ný eftirvænting, ný markmið að setja sér. Góðir sigrar kalla á áframhaldandi velgengni. Ef miður hefur gengið er markmiðið sett hærra – það gengur bara betur næst.
Í knattspyrnunni eru ávallt nýir tímar framundan, ný mót, ný verðlaun, ný tækifæri og ný markmið að setja sér.
Ég hef verið formaður KSÍ í tæp 18 ár, var fyrst kosinn í byrjun desember 1989. Langur tími gæti einhver hugsað, en fyrir mér er eins og það hafi gerst í gær. Tíminn hefur liðið hratt, því verkefnin hafa alltaf verið óþrjótandi. Þetta hefur verið mikill hamingjutími í lífi mínu.
Það hefur alltaf verið mín skoðun að það hafi verið forréttindi fyrir fótboltakarl eins og mig að fá að vera formaður ykkar öll þessi ár. Ég hef aldrei litið á það sem erfiðar skyldur með miklu álagi að vinna þetta starf. Þvert á móti hefur það fært mér mikla gleði og ánægju, sérstaklega þegar góðir sigrar hafa unnist , bæði innan og utan vallar.
En það er líka óhætt að segja að það hefur aldrei verið lognmolla í kringum þennan karl sem hér stendur. Ég hef ávallt verið þannig að ég hef viljað láta verkin tala. Ég er framkvæmdamaður og mér liggur yfirleitt mikið á. Stundum fer ég hraðar en umhverfið skynjar og skilur.
Ég geri mér grein fyrir því að það hefur oft gustað um formann KSÍ þessi ár, en ég hef verið ánægður með það, því það þýðir að það hefur eitthvað verið framkvæmt og tímamótaákvarðanir verið teknar. Það er mikilvægt fyrir KSÍ að hafa formann sem þorir að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir.
Eitt get ég fullvissað ykkur öll um. Ég hef alltaf lagt mig 110% fram í störfum mínum fyrir KSÍ og ykkur öll. Ég horfi stoltur yfir þann árangur sem við höfum náð á síðustu 18 árum. En árangurinn er að sjálfsögðu ekki bara mitt verk. Ég hef átt því láni að fagna að með mér hefur alltaf starfað úrvalsfólk, bæði stjórnarmenn og starfsfólk. Þið eigið mestan heiðurinn skilinn að hafa haldið út með þessum erfiða karli öll þessi ár.
Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á að KSÍ sé vel rekið fjárhagslega. Það er mér því sérstök ánægja að greina frá því hér að rekstrarafkoma síðasta árs er sú besta í sögu sambandsins með hagnað upp á 99,3 milljónir króna og ég er mjög ánægður af því að skila af mér síðasta árinu sem formaður KSÍ með methagnaði.
Uppbyggingu þjóðarleikvangsins, Laugardalsvallar, er að ljúka um þessar mundir. Verið er að leggja lokahönd á verkið og er óhætt að segja að vel hafi til tekist. Það þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þessarar endurbyggingar fyrir KSÍ og knattspyrnuhreyfinguna alla.
Í stuttu máli felast framkvæmdirnar í því að eldri stúka Laugardalsvallar, vesturstúkan, hefur verið stækkuð til norðurs og suðurs og einnig bætt við sætum fyrir framan eldri stúkuna. Þá hefur verið byggt nýtt hús á bak við vesturstúkuna, alls um 3000 m2. Á jarðhæð hússins er móttaka áhorfenda og ýmis veitingaaðstaða. Skrifstofa KSÍ er á 2. hæð og á 3. hæð er funda- og fræðslumiðstöð sem einnig nýtist sem móttaka fyrir gesti á stærri leikjum.
KSÍ aflaði hárra styrkja frá UEFA og FIFA í þessa framkvæmd sem var í raun forsenda þess að fjármunir fengust í þetta verkefni frá ríkisvaldinu og Reykjavíkurborg. KSÍ undirritaði síðan á sínum tíma samning við Reykjavíkurborg um rekstur Laugardalsvallar til ársins 2025.
Endurbyggður Laugardalsvöllur rúmar um 10.000 áhorfendur í sæti eftir breytingar. Aðkoman á völlinn er beint frá aðalbílastæðinu og öll aðstaða til móttöku gesta hefur breyst til betri vegar og gerir okkur kleift að fá meiri tekjur af sölu miða til fyrirtækja og gesta þeirra.
Langþráð takmark er í höfn. - Nýr Laugardalsleikvangur sem uppfyllir kröfur nútímans og stenst samanburð við aðra nútímaleikvanga.
Um leið og því takmarki er náð er rétt að setja ný markmið – í næsta áfanga eigum við að loka hringnum með stúkum fyrir báða enda Laugardalsvallar og setja stefnuna á að því verði lokið árið 2010.
Ég vil enn á ný þakka öllum þeim sem hafa hjálpað Knattspyrnusambandi Íslands að gera þennan draum að veruleika og koma málinu farsællega í gegnum hinn pólitíska ólgusjó hjá ríki og borg.
Sparkvallaátak KSÍ, sem hófst árið 2004, hélt áfram á árinu 2006 og hafa nú verið byggðir um 80 sparkvellir víðs vegar um landið. Næstum allir hafa verið staðsettir við skóla þannig að nálægðin við æskuna sé sem mest. Þetta verkefni er stærsta og vinsælasta útbreiðsluátak sem Knattspyrnusambandið hefur staðið fyrir fyrr og síðar. Það hefur vakið mikla ánægju hjá sveitarstjórnarmönnum og foreldrum að sjá sparkvellina rísa hringinn í kringum Ísland. Og nýtingin er frábær, víða er verið að spila fótbolta á þessum völlum kvölds og morgna.
Þetta verkefni byrjaði með rausnarlegu framlagi á 50 ára afmæli UEFA og KSÍ gerði verkefnið síðan að stórátaki með því að fá samstarfsaðila til liðs við sig, auk rausnarlegs framlags frá fjárlaganefnd og ríkisvaldinu.
Stefnan er sett á að ljúka byggingu meira en 100 sparkvalla fyrir lok þessa árs, 60 ára afmælisárs KSÍ. Það yrði hreint ótrúlegt ævintýri ef það tækist og með því teljum við að þörfinni sé fullnægt í bili. Jákvæðara framtak en þetta er erfitt að hugsa sér og hefur það styrkt mjög jákvæða ímynd KSÍ um allt land.
Verkefnið hér á landi hefur vakið mikla athygli bæði á Norðurlöndum og víða í Evrópu, hve vel KSÍ hefur tekist til með þetta sparkvallaverkefni og gert það að stórátaki í útbreiðslu, og hef ég víða á ferðum mínum verið spurður í þaula um uppbyggingu þessa átaks á Íslandi.
Allt frá því ég tók við stöðu formanns KSÍ árið 1989 hef ég lagt mikla áherslu á mannvirkjamálin og um þau mál hefur verið mikill einhugur innan stjórnar KSÍ, sem og hreyfingarinnar allrar.
Aðstaða knattspyrnufólks, hvort sem er leikmanna eða stuðningsmanna, hefur stórbatnað á síðustu árum, en þó má margt betur fara og sums staðar gengur erfiðlega á fá sveitarfélög til liðs við knattspyrnufélögin í þessum málum.
Mikil bylting hefur orðið á aðstöðu leikmanna til iðkunar yfir vetrartímann með tilkomu knattspyrnuhúsanna og verður áhugavert að sjá hvaða áhrif sú uppbygging mun hafa til langtíma á þjálfun og uppeldi ungs knattspyrnufólks.
Hins vegar hefur sums staðar gengið hægt að bæta aðstöðu stuðningsmanna og hins almenna áhugamanns um knattspyrnu, þó víða hafi sú aðstaða batnað verulega og allt horfi það til betri vegar í náinni framtíð. Þar er ekki síst um að þakka tilkomu leyfiskerfis KSÍ, þar sem kröfur um ákveðna lágmarksaðstöðu þessa mjög svo mikilvæga hóps eru settar fram. Áhorfendur og stuðningsmenn eiga það einfaldlega skilið að fá betri aðstöðu á knattspyrnuleikjum.
Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum 13. janúar síðastliðinn að leggja 100 milljónir króna í svokallaðan mannvirkjasjóð og er hugmyndin sú fá ríkisvaldið til að koma myndarlega inn í þennan sjóð með fjármuni ásamt KSÍ, þannig að knattspyrnufélög og þeirra sveitarfélög sem hyggja á framkvæmdir til uppbyggingu mannvirkja fyrir iðkendur og aðra lykilhópa í knattspyrnuhreyfingunni geti sótt um styrkveitingar úr þeim sjóði. Það er von mín að þessi sjóður gegni lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem mun eiga sér stað í þessum málum í framtíðinni.
Í nokkur ár hefur verið fjörleg umræða innan knattspyrnuhreyfingarinnar um fjölgun liða í deildum.
Um þetta mál hefur verið fjallað á þingum, skipaðar milliþinganefndir sem skilað hafa álitum og á þinginu 2005 var skipuð milliþinganefnd sem falið var að – “móta framtíðarstefnu í gerð og hönnun leikvalla á Íslandi þannig að lengja megi keppnistímabilið og hefja það fyrr á vorin”.
Á ársþinginu 2006 lagði ég til að stjórn KSÍ yrði falið að koma með heildartillögur í þessum efnum bæði hvað varðar framtíðarskipulag deildarkeppninnar, fjölgun liða og kröfur til mannvirkja í því sambandi.
Það er tímabært að móta framtíðarstefnu í þessum málum.
Það var og er ljóst í mínum huga að um leið og sú framtíðarsýn er mótuð, þarf um leið að setja ákveðinn tímaramma til að leikvangar félaganna fullnægi skilyrðum sem sett verða sem forsenda fjölgunar í deildarkeppnum.
Ég sagði þá að eðlilegt væri að fyrstu tillögur yrði lagðar fyrir formannafund um haustið og síðan fullmótaðar tillögur fyrir ársþing á 60 ára afmæli KSÍ árið 2007. Stórn KSÍ kom fram með tillögu um breytingu á mótafyrirkomulaginu, sem gekk talsvert lengra en menn höfðu gert ráð fyrir í byrjun. Sú tillaga gerði ráð fyrir þrefaldri umferð í Landsbankadeild karla og yrði fyrsta umferðin af þremur leikin í knattspyrnuhúsum á vorin.
Tillagan var síðan rædd ítarlega á formannafundi í haust og í kjölfarið ákvað stjórn sambandsins að legga fram tillögu á ársþingi KSÍ 2007 um fjölgun liða í Landsbankadeild karla, 2. deild karla og Landsbankadeild kvenna. Sú tillaga gengur út á að skapa eins mikla einingu innan knattspyrnuhreyfingarinnar um framtíðarskipan deildarkeppninnar og mögulegt er. Samkvæmt tillögunni verða þá 12 lið í þremur efstu deildum karla og 10 lið í efstu deild kvenna. Á síðasta ári var stórt skref stigið í þessum málum þegar ársþingið samþykkti fjölgun liða í 1. deild úr 10 í 12, og verður spennandi að sjá hvernig til tekst næsta sumar.
Ljóst er að um er að ræða gríðarlega stóra breytingu á fyrirkomulagi þessara landsdeilda og er ég sannfærður um að þessar breytingar muni skila sér í enn öflugari deildarkeppni karla og kvenna í framtíðinni.
Árið 2006 var hið fyrsta sem A-landslið karla var undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar. Riðillinn sem Íslands er í er skipaður geysisterkum liðum og ljóst að um marga erfiða leiki verður að ræða. Undankeppni EM 2008 hófst vel, með frábærum útisigri gegn Norður- Írum, en í kjölfarið komu þrír ósigrar, þar af einn skellur í Lettlandi.
Að mínu mati er þetta ekki viðunandi árangur. Við hefðum þurft að ná stigi eða stigum á heimavelli og voru reyndar óheppnir að ná ekki einhverju út úr leiknum gegn Svíum hér á Laugardalsvelli. Á þessu ári leikum við tvisvar gegn Liechtenstein og eigum að auki heimaleiki gegn Lettum, Norður-Írum og Spánverjum, þannig að Eyjólfur og hans menn ættu að geta náð nokkrum stigum í hús. Takmarkið hlýtur að vera 10-12 stig í ár og 4. sætið í riðlinum.
Kvennalandsliðið, sem lék sinn 100. leik á árinu, átti möguleika á að veita Svíum keppni um efsta sæti riðilsins í undankeppni HM 2007. Sá möguleiki var hins vegar úr sögunni eftir tap gegn Tékkum á Laugardalsvellinum. Engu að síður er kvennalandsliðið okkar topp 20 lið á heimsvísu og á að mínu mati raunhæfa möguleika á að komast í lokakeppni stórmóts á næstu árum. Með það fyrir augum hefur markmiðið verið sett á lokakeppni EM 2009 og ákvað stjórn KSÍ á fundi sínum 13. janúar sl. að kvennalandsliðið fái 10 milljóna kr. afreksstyrk komist liðið í úrslitakeppni EM 2009 sem skiptist milli þeirra leikmanna sem taka þátt í riðlakeppninni. Fyrsti leikur kvennalandsliðsins í riðlakeppni undir stjórn nýs landsliðsþjálfara Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, sem við bindum miklar vonir við, verður gegn Grikklandi ytra 31. maí nk. Stjórn KSÍ ákvað jafnframt að jafna dagpeningagreiðslur til karla- og kvennalandsliðsins.
Á mínum tíma sem formaður hef ég lagt mikla áherslu á eflingu kvennaknattspyrnu og tel að nú þegar ég er að láta af starfinu hafi raunar þrekvirki unnist á þessu tímabili - ótrúlega miklar framfarir, fjölgun leikja í mótum innanlands, fjölgun landsliða og landsleikja og mikil fjölgun iðkenda - staðan er allt önnur í dag en hún var fyrir 20 árum. Umræða um kvennaknattspyrnu og gagnrýni á stöðu hennar er oft óréttlát og þar hafa kannski látið hæst ýmsir hagsmunaaðilar sem hefðu gjarnan mátt sýna meiri beinan stuðning við framgang kvennaknattspyrnunnar, frekar en bara að gagnrýna það sem þeim fannst miður fara. Oft á tíðum skella þessir aðilar gagnrýni fram, en eru síðan ekki tilbúnir til að aðstoða okkur, t.a.m. við að herja á stjórnvöld og aðra og að sækja nauðsynlega fjármuni og stuðning.
Á 60 ára afmælisárinu sem nú er gengið í garð mun KSÍ halda úrslitakeppni EM U19 landsliða kvenna. Um er að ræða eitt allra stærsta og metnaðarfyllsta verkefni sem KSÍ hefur ráðist í og verður mjög spennandi að sjá hvernig tekst til. Ljóst er að uppgangurinn í kvennaknattspyrnunni hér á landi er mikill og ör, og svo verður áfram á komandi misserum.
Kvennalið Breiðabliks hélt uppi merkjum íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum á árinu með góðum árangri í UEFA-bikar kvenna. Blikastúlkur unnu sannfærandi sigur í sínum riðli í 1. umferð keppninnar og tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum með því að ná 2. sætinu í milliriðli, á eftir einu sterkasta félagsliði Evrópu í kvennaknattspyrnunni, þýska liðinu Frankfurt. Í 8-liðum mætti Breiðablik hins vegar ofjörlum sínum í enska liðinu Arsenal. Greinilegt er að íslensk kvennaknattspyrna er á réttri leið og framtíðin er björt. Með öflugri þjálfun og markvissri uppbyggingu gætu félagslið okkar náð enn lengra á næstu árum.
Ég hef haft ákveðnar áhyggjur af árangri karlaliðanna okkar í Evrópumótum félagsliða undanfarin árin, því það verður að segjast eins og er að hann hefur verið heldur slakur, þó liðin okkar hafi sýnt ágæta leiki á liðnu ári. Við þurfum að fara að brjótast í gegnum forkeppnina og komast í aðalkeppnir þessara móta til að styrkja stöði íslenskra félagsliða á Evrópskan mælikvarða.
Ég óska öllum til hamingju sem unnu til góðra sigra á liðnu keppnistímabili.
FH varð Íslandsmeistari í Landsbankadeild karla þriðja árið í röð, sannarlega frábær árangur hjá félaginu. Keflvíkingar urðu VISA-bikarmeistarar karla með glæsilegum sigri í úrslitaleik á Laugardalsvellinum.
Þá vann sýndi Valur styrk sinn í kvennaflokki með því að vinna tvöfaldan sigur, í Landsbankadeild og VISA-bikar. Sérlega glæsilegur árangur. Ekki er hægt annað en að nefna sérstaklega frammistöðu Margrétar Láru Viðarsdóttur með Valsliðinu, sem skoraði ótrúlegan fjölda marka á keppnistímabilinu.
Öllum sem urðu Íslandsmeistarar, bikarmeistarar eða unnu sig upp um deild óska ég innilega til hamingju.
Menntun íslenskra knattspyrnuþjálfara hefur aukist verulega á síðustu árum. Á árinu voru á fjórða hundrað knattspyrnuþjálfarar útskrifaðir af námskeiðum á vegum KSÍ. Þar af sóttu auðvitað einhverjir fleiri en eitt stig. KSÍ bauð í fyrsta skipti upp á öll 7 þjálfarastigin á einu ári og var þetta starfsár það fyrsta eftir að KSÍ fékk leyfi til að veita bæði UEFA-B og UEFA-A þjálfaragráður. Sífellt fleiri sækja sér bæði grunnmenntun og framhaldsmenntun í þessum fræðum og er það vel, þar sem slíkt getur einungis styrkt stoðir íslenskrar knattspyrnu til langtíma litið. Betur menntaðir þjálfarar munu skila sér í betri þjálfun ungra leikmanna, og þar með betri leikmönnum framtíðarinnar.
Rekstrarafkoma ársins 2006 var svo sannarlega glæsileg, eins og ég kom inn á hér fyrr í ræðu minni.
Heildartekjur KSÍ samstæðunnar á árinu voru 516,5 milljónir kr. og heildargjöld voru 417,2 milljónir kr. Hagnaður varð því 99,3 milljónir kr.
Í ljósi þess ákvað stjórn KSÍ að greiða sérstakt framlag til aðildarfélaga af hagnaði, alls 16,1 milljón kr. Niðurstaða ársins varð því jákvæð sem nam 83,2 milljónir kr.
Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 19,3 milljónir kr. Rekstrartekjur voru 377 milljónir kr., en rekstrargjöld 357,7 milljónir kr. Rekstrartekjur voru 7% umfram áætlun, en rekstrargjöldin voru 2% umfram áætlun.
Eins og mörg undanfarin ár voru fjármunatekjur stór liður í afkomu KSÍ. Á árinu 2006 námu þær 103,8 milljónum kr., en fjármagnsgjöld voru 14,3 milljónir kr.
Þriðja árið í röð voru lagðir fjármunir í sparkvallagerð vítt og breitt um landið. Á árinu 2006 voru lagðir 12 vellir og þá hafa alls verið lagðir 76 vellir. Kostnaður við sparkvallaátakið er nú alls rúmlega 180 milljónir kr.
Rekstrarafkoma KSÍ samstæðunnar er sú besta í sögu sambandsins og eigið fé hennar var í lok árs 2006 orðið 280,6 milljónir kr. Eins og fram hefur komið mun KSÍ verja 100 milljónum kr. af eigið fé í mannvirkjasjóð.
Ég er mjög stoltur af að geta skilað af mér KSÍ með svona glæsilega fjárhagsstöðu. Ég færi gjaldkera, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra sérstakar þakkir fyrir frábæran árangur. Ég tel mjög mikilvægt að þeir sem nú taka við stjórnartaumunum í Knattspyrnusambandinu gæti áfram hófs í fjármálum þess og tryggi að eigið fé KSÍ sé ávallt nægilegt til að viðhalda sama öfluga starfi ef allt í einu kemur slæmt árferði í knattspyrnuheiminum og tekjurnar minnka snögglega.
Ég sagði hér í upphafi ræðu minnar að ársþing KSÍ hefðu lengi haft á sér orð fyrir að þar mættu vígreifir forystumenn með mjög ákveðnar skoðanir. Ég hef starfað lengi í þessari góðu hreyfingu og svo lengi sem ég man eftir knattspyrnuþingum hafa menn þar verið hreinskilnir í umræðu, tekist á um málefni og skilið sáttir að leikslokum.
Hér eru rædd stefnumál hreyfingarinnar, framtíð með hliðsjón af fortíð.
Ég skora á ykkur öll að hugsa fyrst og síðast um hag heildarinnar og láta ekki dægurþras og einkahagsmunapot stýra gerðum ykkar. Það á að vera stormasamt á ársþingum, það á að vera líf og kraftur í hreyfingunni, í mínum huga eru átök alltaf undanfari framfara. Tökumst nú saman á við þau málefni og þau störf sem bíða úrlausna, knattspyrnuhreyfingunni til framdráttar.
Að lokum vil ég þakka ykkur forystumönnum íslenskrar knattspyrnu fyrir heilladrjúg og mikilvæg störf í þágu hreyfingarinnar á liðnu starfsári. Án ykkar mikla starfs og ósérhlífni væri knattspyrnan á Íslandi ekki í því ótvíræða forystuhlutverki sem hún er í í íslensku íþróttalífi. Í ykkar hópi eru margar hetjur og kraftaverkamenn sem halda starfinu gangandi ár eftir ár.
Nú þegar ég læt af formennsku í KSÍ eftir tæp 18 ár er mér fyrst og fremst þakklæti í huga að hafa fengið að starfa að mínu stóra áhugamáli og í forystu þessarar öflugu hreyfingar allan þennan tíma. Hreint ótrúlega skemmtilegur tími. Ég hef eignast fjölda vina í þessari hreyfingu, bæði hér heima og erlendis. Fyrir allt þetta er ég þakklátari en orð fá lýst.
Ég hef áður sagt og vona að þið öll, forystufólkið, séuð mér sammála um að það séu forréttindi að fá að vera forystumaður í þessari skemmtilegu íþrótt, knattspyrnunni.
Hafið öll miklar þakkir fyrir þann mikla stuðning sem þið hafið sýnt mér á síðustu 18 árum.
Nú bið ég ykkur að takast saman á við þau störf sem bíða úrlausnar á þessu þingi til framfara í íslenskri knattspyrnu. Hér störfum við saman af drenglyndi og heilindum.
61. ársþing KSÍ, á sextugsafmæli sambandsins, er sett.