Dregið í riðla fyrir EM U21 karla á þriðjudaginn
Þriðjudaginn 13. febrúar verður dregið í riðla fyrir EM 2007-2009 hjá U21 karla en úrslitakeppnin fer fram í Svíþjóð. Ísland er í þriðja styrkleikaflokki en alls verða 51 þjóð í pottinum.
Drátturinn hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma og verður dregið í 10 riðla. Níu riðlar munu innihalda fimm þjóðir en sá tíundi mun verða skipaður sex þjóðum. Ísland er í þriðja styrkleikaflokki ásamt Tyrklandi, Grikklandi, Póllandi, Hvíta-Rússlandi, Noregi, Bosníu-Hersegóvínu, Búlagaríu, Litháen og Moldovíu. Ísland mun því ekki lenda með þessum þjóðum í riðli.
Sigurvegarar riðlanna tíu og þær fjórar þjóðir sem verða með bestan árangur í öðru sæti, munu leika aukaleiki um sjö sæti í úrslitakeppninni. Áttunda þjóðin verða svo gestgjafar úrslitakeppninnar, Svíþjóð.