• fim. 18. jan. 2007
  • Landslið

6 mánuðir í fyrsta leik!

Merki_WU19_Iceland_2007
Merki_WU19_Iceland_2007

Úrslitakeppni EMU19 kvenna hefst þann 18. júlí, eftir nákvæmlega 6 mánuði.  Fjórir leikir munu fara fram miðvikudaginn 18. júlí og mun íslenska liðið leika opnunarleik mótsins á Laugardalsvelli.  Milliriðlar fyrir úrslitakeppnina fara fram í apríl og lok maí verður dregið í riðla við hátíðlega athöfn í Reykjavík. 

Verið er að leggja lokahönd á niðurröðun mótsins en leikirnir munu fara fram á 7 keppnisvöllum í Reykjavík og nágrenni: Akranesvelli, Grindavíkurvelli,  Hlíðarenda, Kópavogsvelli, KR-velli Laugardalsvelli og Víkingsvelli.  Annar undanúrslitaleikurinn og úrslitaleikurinn sjálfur, verða í beinni útsendunu á sjónvarpstöðinni Eurosport.

Um er að ræða eitt allra stærsta og metnaðarfyllsta verkefni sem Knattspyrnusamband Íslands hefur tekið að sér og er það alveg ljóst að framkvæmd mótsins mun ekki ganga upp nema með aðstoð aðildarfélaga sambandsins og sjálfboðaliða úr knattspyrnuhreyfingunni.

Ef þú vilt taka þátt í þessu verkefni með okkur vinsamlegast sendu okkur tölvupóst á klara@ksi.is.   Verkefnin eru næg, til dæmis þarf fylgdarfólk fyrir hverja gestaþjóð, fylgdarfólk fyrir dómara, bílstjóra og aðstoð við framkvæmd leikja.