Riðillinn klár fyrir undankeppni EM 2009
Í dag var dregið í riðla í undankeppni fyrir EM 2009 en úrslitakeppnin fer fram í Finnlandi. Ísland var í öðrum styrkleikaflokki og lenti í þriðja riðli með Frakklandi, Serbíu, Slóveníu og Grikklandi.
Sigurvegarar riðlanna, sem eru sex talsins, komast beint í úrslitakeppnina en liðin í öðru sæti komast í umspil ásamt þeim fjórum liðum sem bestan árangur hafa í þriðja sæti. Finnland kemst svo sjálfkrafa í úrslitakeppnina sem gestgjafar.
Ef litið er á styrkleikalista FIFA kvenna, en síðasti listi var gefinn út 15. september síðastliðinn, ættu möguleikar íslenska liðsins að vera allgóðir. Frakkar eru í 6. sæti, Serbía í 30. sæti, Grikkir í 56. sæti og Slóvenía í 62. sæti. Ísland er í 21. sæti listans en nýr listi verður gefinn út 22. desember næstkomandi.
Hægt er að sjá riðlaskiptinguna hér.