Leikdagar staðfestir fyrir EM 2009
Leikdagar fyrir undankeppni EM kvenna 2009 eru tilbúnir og mun Ísland leika við Grikkland á útivelli í fyrsta leik sínum í riðlinum. Fer sá leikur fram 31. maí. Síðasti leikur Íslands í riðlinum er einnig útileikur en þá verður leikið við Frakkland.
Íslenska liðið hefur aldrei áður mætt Serbíu eða Slóveníu í kvennalandsleik. Hinsvegar hafa Frakkar fjórum sinnum verið mótherjar okkar og hafa þrisvar borið sigur úr býtum en einu sinni hefur orðið jafntefli. Síðast voru þjóðirnar saman í riðli fyrir undankeppni EM 2005 og unnu Frakkar hér heima, 3-0 og í Frakklandi 2-0.
Tvisvar sinnum hafa Grikkir verið mótherjar okkar og hafa íslensku stelpurnar unnið báða þá leiki. Var það í undankeppni fyrir EM 1995 og vannst sigur hér heima, 3-0 og í Grikklandi, 6-1. Ásthildur Helgadóttir skoraði fjögur mörk í þeim leik.