• fim. 07. des. 2006
  • Landslið

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari A landsliðs kvenna

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Guðni Kjartansson taka við A-landsliði kvenna
SiggiRaggi_og_Gudni

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem þjálfara A landsliðs kvenna og Guðna Kjartansson sem aðstoðarmann hans.  Sigurður og Guðni munu stýra liðinu næstu tvö ár og stýra liðinu í næstu Evrópukeppni.

Sigurður Ragnar er íþróttafræðingur að mennt, og hefur Mastersgráðu í æfinga- og íþróttasálfræði frá Greensboro háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.  Sigurður hefur leikið knattspyrnu erlendis sem atvinnumaður, m.a. með Walsall í 1. og 2. deild í Englandi og svo með Harelbeke í úrvalsdeildinni í Belgíu.  Sigurður Ragnar er um þessar mundir að ljúka við UEFA A þjálfaragráðu hjá KSÍ.  Þá hefur Sigurður Ragnar starfað sem fræðslustjóri KSÍ síðan í febrúar 2002 en eitt af hans aðal hlutverkum í því starfi hefur verið að byggja upp þjálfaramenntun á Íslandi fyrir hönd KSÍ.  Sigurður Ragnar á einnig farsælan feril að baki sem leikmaður á Íslandi, en hann varð m.a. Íslandsmeistari með KR árin 2002 og 2003.  Sigurður Ragnar hyggst freista þess að komast inn á UEFA Pro þjálfaranámskeið hjá enska knattspyrnusambandinu á næsta ári og vera þar með annar Íslendingurinn til að ljúka UEFA Pro þjálfaragráðu.

Guðni er íþróttakennari að mennt og er um þessar mundir að ljúka UEFA A þjálfaragráðu.  Guðni er einn reynslumesti þjálfarinn í íslensku knattspyrnunni og hefur stjórnað flestum landsliðum Íslands, m.a. A-landsliði karla.  Guðni hefur um árabil verið U-19 landsliðsþjálfari karla.  Guðni hefur verið valinn íþróttamaður ársins og á að baki 31 A-landsleik sem leikmaður fyrir Ísland og var þar af fyrirliði í 7 leikjum.

Sigurður Ragnar og Guðni störfuðu m.a. saman á U-18 móti í Tékklandi síðastliðið sumar og stýrðu þar í sameiningu U-18 landsliði karla í 3 leikjum.

Næsta verkefni A landsliðs kvenna er undankeppni EM, en úrslitakeppnin fer fram í Finnlandi sumarið 2009.  Að þessi sinni taka 12 lið þátt í úrslitakeppninni og er það markmið KSÍ að Ísland vinni sér sæti í þeirri keppni.  Dregið verður í riðla 13. desember næstkomandi.  Forkeppni fyrir riðlakeppnina hefur þegar farið fram og þau lið sem eftir standa (30) verða dregin í sex fimm liða riðla.  Sigurvegarar riðlanna fara beint í úrslitakeppnina (6 lið), öll liðin í 2. sæti og þau fjögur lið sem ná bestum árangri í 3. sæti leika aukaleiki (heima og heiman) um sæti í úrslitakeppninni (5 lið).  Gestgjafarnir, Finnar, fara beint í úrslitakeppnina (1).

Íslenska liðið er í styrkleikaflokki B og verður í riðli með einu liði úr A, C, D og E riðlum.

A

Þýskaland

Svíþjóð

Noregur

Danmörk

England

Frakkland

B

Rússland

Ítalía

Tékkland

Ísland

Úkraína

Holland

C

Spánn

Skotland

Pólland

Serbía

Sviss

Ungverjaland

D

Belgía

Portúgal

Hvíta-Rússland

Írland

Austurríki

Grikkland

E

Slóvenía

N-Írland

Ísrael

Slóvakía

Rúmenía

Wales

KSÍ þakkar Jörundi Áka Sveinssyni og Elísabetu Gunnarsdóttur aðstoðarkonu hans fyrir góð störf og óskar þeim velfarnaðar.