Knattspyrna: Kjarnyrt íslenskt orð
Í tilefni af degi íslenskrar tungu fimmtudaginn 16. nóvember er vel við hæfi að rifja upp hvers vegna okkar göfuga íþrótt ber nafn sitt eða nöfn, þ.e. knattspyrna eða fótbolti.
Knattspyrna nam land á Íslandi seint á 19. öld og m.a. var íþróttin kölluð "knattleikur" í grein sem Jón Þórarinsson skólastjóri og seinna fræðslufulltrúi ritaði í Ísafold og bar heitið "Um líkamsæfingar og handavinnu í skólum". Iðkendur íþróttarinnar töluðu þó oftast einfaldlega um "fótbolta".
Í bókinni "Knattspyrna í heila öld", sem gefin var út í tilefni af 50 ára afmæli KSÍ árið 1997 er sagt þannig frá:
Orðið knattspyrna varð til árið 1912 en höfundur þess var Bjarni frá Vogi. Til hans var leitað um að finna nýyrði fyrir íþróttina þar sem "fótbolti" þótti ekki nógu fínt heiti. "Knattspyrna" er kjarnyrt íslenskt orð sem festi sig strax í sessi, án þess þó að útrýma "fótboltanum".
Í Englandi átti sér stað svipað ferli. "Association Football" var opinbera heitið á enska tungu, en jafnan talaði fólk um "soccer" eða "football".
Áfram er haldið í bókinni "Knattspyrna í heila öld":
En hvorki í Englandi né á Íslandi hefur "virðulegu" heitunum tekist að útrýma hinum "óæðri". Englendingar nota fyrst og fremst hið þægilega orð "football" og hér á Íslandi er jafnan talað um að fara í "fótbolta" í daglegu máli.