KSÍ býður upp á fyrirlestur á sviði þjálffræði í knattspyrnu.
KSÍ býður öllum áhugasömum upp á ókeypis fyrirlestur hjá Jens Bangsbo föstudaginn 17.nóvember klukkan 20.00 - 22.00 í fundarsal 1 í Laugardalshöllinni (nýja höllin, gervigrasmegin).
Fyrirlesturinn fer fram á ensku og nefnist:"Training of a top class football player - what to learn from science and experience".
Jens Bangsbo verður hér á landi vegna sérnámskeiðs fyrir þjálfara sem luku E-stigi í gamla þjálfaramenntunarkerfi KSÍ, en það eru margir fremstu þjálfarar landsins í þeim hópi. KSÍ hefur ákveðið að leyfa fleirum að njóta þess að hlýða á þennan þekkta fyrirlesara.
Dr. Jens Bangsbo er prófessor í íþróttalífeðlisfræði við Kaupmannahafnar háskóla og gerði doktorsritgerð sína um lífeðlisfræði fyrir knattspyrnu. Hann starfaði sem fitnessþjálfari hjá Juventus á Ítalíu í nokkur ár og sá um líkamlegan undirbúning danska landsliðsins í knattspyrnu fyrir HM 2002 og EURO 2004. Hann hefur haldið ótal fyrirlestra á vegum UEFA og FIFA um allan heim. Hann hefur skrifað bækur um líkamsþjálfun knattspyrnumanna. Jens lék yfir 400 leiki í efstu deild í Danmörku og á að baki A-landsleiki í knattspyrnu fyrir danska landsliðið.
Það er því mikill fengur fyrir knattspyrnuþjálfara og aðra áhugasama að fá að hlusta á Jens Bangsbo og það er vert að hvetja sem flesta til að mæta, enda er aðgangur ókeypis.
Það er þó nauðsynlegt að skrá sig með því að senda nafn, kennitölu, gsm síma og netfang á ragga@@ksi.is
Fyrirlesturinn telur upp í 15 tíma endurmenntun sem er nauðsynleg til að viðhalda UEFA B og UEFA A þjálfaragráðu.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)