• mán. 30. okt. 2006
  • Landslið

Yfirlýsing frá KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Vegna fréttar Fréttablaðsins um greiðslur til leikmanna A landsliða Íslands í knattspyrnu vill KSÍ koma eftirfarandi á framfæri:

KSÍ hefur markvisst byggt upp kvennaknattspyrnu á liðnum áratug þrátt fyrir að litlar sem engar tekjur hafi verið af þeirri starfsemi. Þær litlu tekjur sem þó hafa fengist hafa verið í formi styrkja sem hvergi nærri hafa staðið undir rekstrinum. Kostnaður við rekstur A landsliðs kvenna og þriggja yngri landsliða kvenna er að mestu greiddur af tekjum A landsliðs karla. Þetta er sá raunveruleiki sem við blasir. Tekjur A landsliðs karla byggjast á áhuga almennings á leikjum liðsins og réttindagreiðslum vegna sjónvarpsútsendinga frá þeim, mest erlendis frá.

KSÍ hefur átt mikið og gott samstarf á vettvangi knattspyrnunnar við systursamtök sín á Norðurlöndum og þar er þessum málum svipað farið og hér á landi.

KSÍ hefur reynt að jafna stöðu leikmanna í kvennalandsliðum sl. áratug gagnvart karlalandsliðum - enn er þó langt í land að fullur jöfnuður náist þegar kemur að A landsliðum. Það er verkefni komandi ára að bæta þar úr.