Svíar höfðu betur í hörkuleik
Íslendingar töpuðu fyrir Svíum í kvöld með einu marki gegn tveimur. Leikurinn var fjörgur og voru Íslendingar síst lakari aðilinn. Arnar Þór Viðarsson skoraði mark Íslendinga á 7. mínútu með þrumuskoti.
Það tók Svía hinsvegar aðeins eina mínútu að jafna metin og var Kim Kallström þar að verki með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Heldur róaðist yfir leiknum eftir þessa fjörugu byrjun en mikil barátta einkenndi leikinn. Jafnt var því í hálfleik, 1-1.
Sama baráttan var upp á teningnum í síðari hálfleik og hafði pólskur dómari leiksins í mörg horn að líta. Svíar skoruðu svo mark á 60. mínútu og var þar Christian Wilheilmsson að verki. Íslenska liðið lagði síður en svo árar í bát heldur bættu frekar í.
Lokakafli leiksins var æsispennandi og var mikil pressa að marki Svíana. Fyrirliðinn, Eiður Smári Guðjohnsen var aðeins hársbreidd frá því að jafna leikinn á 86. mínútu þegar aukaspyrna hans small í þverslánni og niður í teiginn.
Svíar fögnuðu vel þegar að dómarinn flautaði til leiksloka en íslensku strákarnir voru niðurlútir. Leikur þeirra var engu að síður prýðilegur og liðið óheppið að fá ekkert út úr þessum leik.