• sun. 08. okt. 2006
  • Landslið

Sigurmark Bandaríkjamanna í uppbótartíma

Alidkv2004-0406
Alidkv2004-0406

A landslið kvenna mætti í dag liði Bandaríkjanna í vináttuleik í Richmond í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Íslenska liðið átti í vök að verjast allan leikinn en var mjög nálægt því að ná jafntefli gegn gríðarsterku liði heimamanna.

Abby Wambach skoraði fyrsta mark leiksins á 37. mínútu eftir þunga sókn bandaríska liðsins og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin fyrir íslenska liðið úr vítaspyrnu á 90. mínútu leiksins og töldu þá flestir að jafnteflinu hefði verið náð, en bandarísku leikmennirnir voru ekki af baki dottnir og skoruðu sigurmarkið þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Þóra B. Helgadóttir stóð í ströngu allan leikinn og varði hvað eftir annað stórkostlega, enda var hún valin maður leiksins.