• sun. 08. okt. 2006
  • Landslið

Íslendingar lágu gegn Lettum

Alid-byrjunarlid-01a-togt
Alid-byrjunarlid-01a-togt

Íslenska karlalandsliðið beið lægri hlut gegn Lettum í undankeppni fyrir EM 2008.  Heimamenn fögnuðu góðum sigri í Riga en lokatölur urðu 4-0, Lettum í vil.  Íslenska liðið tekur á móti, efsta liði riðilsins, Svíum á miðvikudag.

Það voru Íslendingar sem að fengu fyrsta dauðafærið í leiknum og kom það strax á annarri mínútu leiksins.  Liðið var ákveðið í byrjun og virtist til alls líklegt.  Lettar voru hinsvegar á öðru máli og tvö mörk á tveggja mínútna kafla voru reiðarslag fyrir Íslendinga.  Ekki vænkaðist hagur okkar manna þegar að Lettar bættu við þriðja markinu á 25. mínútu.  Þannig var staðan er leikmenn gengu til búningsherbergja í leikhléi.

Byrjun Íslendinga lofaði góðu sem fyrr en fyrirheitin komu fyrir lítið.  Heimamenn bættu við fjórða markinu á 52. mínútu og úrslit leiksins ráðinn.  Íslenska liðið fékk þó ágætis tækifæri sem eftir lifði leiks, eins og í leiknum öllum, en allt kom fyrir ekki.  Lokatölur 4-0 fyrir heimamenn og fögnuðu þeir vel verðskulduðum sigri.

Leikmenn geta þó ekki dvalið lengi við þessi úrslit því Svíar koma í heimsókn í Laugardalinn á miðvikudag.  Svíar, sem eru eitt allra sterkasta landslið í Evrópu, unnu góða sigur á Spánverjum í gær með tveimur mörkum gegn engu.  Það verður því krefjandi verkefni sem bíður íslensku strákanna á miðvikudag kl. 18:05.

Enn eru til miðar og er hægt að nálgast þá hér á síðunni, á www.midi.is, í verslunum Skífunnar á höfuðborgarsvæðnu og verslunum BT-tölva á landsbyggðinni.