Stórsigur á Portúgölum
Íslenska landsliðið lék lokaleik sinn í undankeppni fyrir HM 2007 í dag þegar þær mættu Portúgal í Lissabon. Íslensku stelpurnar léku við hvern sinn fingur og sigruðu með sex mörkum gegn engu. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fjögur mörk í sínum 25. landsleik.
Aðstæður voru hinar ágætustu í Lissabon, völlurinn þokkalegur og hitinn um 24 stig. Íslenska liðið byrjaði af krafti og sköpuðu sér tvö ágætis færi á fyrstu mínútunum. Fyrsta markið lét heldur ekki bíða lengi eftir sér en það kom á 9. mínútu. Greta Mjöll tók þá hornspyrnu og Katrín Jónsdóttir gnæfði yfir alla í teignum og stangaði boltann inn, óverjandi fyrir markvörð Portúgala. Staðan orðin 0-1, sannkölluð óskabyrjun hjá stelpunum og verðskulduð eftir kraftmikla byrjun.
Margrét Lára Viðarsdóttir, sem lék í dag sinn 25. landsleik, bætti svo við öðru marki liðsins á 22. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik og góður fyrri hálfleikur að baki. Seinni hálfleikur var heldur rólegur í byrjun en á 56. mínútu dró til tíðinda. Katrín Jónsdóttir, er lék sem miðvörður í þessum leik, brá sér að nýju inn í teig þegar að liðið fékk hornspyrnu. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði sitt annað mark með skalla í þessum leik.
Á 59. mínútu gerði Elísabet Gunnarsdóttir breytingu á liðinu en hún stjórnaði liðinu í fjarveru Jörundar Áka Sveinssonar sem tók út leikbann og sat upp á pöllum. Tók hún þær Guðlaugu Jónsdóttur og Ernu B. Sigurðardóttur útaf en inná komu Málfríður Erna Sigurðardóttir og Bryndís Bjarnadóttir. Var þetta fyrsti landsleikur Bryndísar.
Margrét Lára var svo aftur ferðinni á 67. mínútu og íslenska liðið með öll völd á vellinum og Margrét Lára var ekki hætt. Á 79. mínútu prjónaði hún sig laglega í gegnum vörn Portúgala og skoraði sitt þriðja mark í leiknum. Þegar 86 mínútur voru liðnar af leiknum þá skoraði Margrét Lára sitt fjórða mark í leiknum og sjötta mark Íslendinga. Margrét Lára er aðeins tvítug og var þetta mark hennar 20. mark hennar fyrir A-landslið kvenna. Einstakur árangur hjá þessari frábæru knattspyrnukonu.
Sannarlega góður endir á þessari undankeppni en Ísland hafnaði í 3. sæti riðilsins á eftir Svíum og Tékkum. Næsta verkefni hjá kvennalandsliðinu er vináttulandsleikur við Bandaríkin ytra en sá leikur fer fram 8. október næstkomandi.