Ágætis byrjun
A landslið karla vann í dag frábæran 3-0 sigur á Norður-Írum í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2008, en liðin mættust á Windsor Park í Belfast. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Íslendingar leggja N.-Íra á útivelli.
Öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu með utanfótarskoti við markteig. Hermann Hreiðarsson bætti við öðru marki átta mínútum síðar með skoti eftir hornspyrnu og Eiður Smári Guðjohnsen innsiglaði svo sigurinn með sínu 17. landsliðsmarki á 37. mínútu, og hefur hann þar með jafnað markamet Ríkharðs Jónssonar.
Ekki er hægt að segja annað en að þetta hafi verið "ágætis byrjun" hjá Eyjólfi Sverrissyni, þjálfara íslenska liðsins, og er þá vísað í fyrstu plötu hljómsveitarinnar Sigurrósar, sem bar einmitt það nafn.
Þriggja marka sigur á útivelli í fyrsta leik undankeppninnar er aldeilis gott veganesti fyrir næsta leik, gegn Dönum á Laugardalsvelli á miðvikudag.
Í öðrum leikjum dagsins unnu Svíar Letta með einu marki gegn engu í Lettlandi og Spánverjar unnu auðveldan 4-0 sigur á Liechtenstein.