• fim. 31. ágú. 2006
  • Landslið

Strákarnir kljást við ítalskar stjörnur

Rossi
Rossi

Þeir fjölmörgu aðdáendur ítalska boltans hér á landi munu vafalaust kætast yfir komu U21 liðsins hingað og leik þeirra við Íslendinga á föstudaginn.  Nokkrir leikmenn liðsins eru vel þekktir og leika margir stór hlutverk hjá sínum félagsliðum.

Gianluca Gurci markvörður hefur verið aðalmarkvörður Roma og þykir frábær markvörður.  Vinstri bakvörður liðsins er Giorgio Chiellini og er hjá Juventus.  Hann hefur leikið einn landsleik með A-landsliðinu og á dögunum bárust þær fréttir að Chelsea væri að undirbúa tilboð í leikmanninn.  Leikstjórnandi ítalska U21 liðsins heitir Alberto Aquilani og leikur með Roma.  Skoraði hann 2 mörk á dögunum þegar að Roma og Inter léku hinn árlega leik á milli Ítalíumeistaranna og bikarmeistaranna.

Sóknarmaðurinn Giampaolo Pazzini hefur leikið vel með Fiorentina og ekki má gleyma Guiseppe Rossi, leikmanni Manchester United.  Þessi 19 ára leikmaður, sem þykir mikið efni, hefur nú verið lánaður til Newcastle.

Þjálfarateymið skipa skærar stjörnur úr knattspyrnuheiminum.  Þjálfari liðsins er Pierluigi Casiraghi en hann tók við ítalska liðinu fyrir um mánuði síðan af harðjaxlinum Claudio Gentile.  Casiraghi lék m.a. með Juventus, Lazio og Chelsea og lék 44 landsleiki fyrir Ítalíu og skoraði í þeim 13 mörk.  Einn af aðstoðarmönnum Casiraghi er goðsögnin Gianfranco Zola sem er öllum knattspyrnuáhugamönnum velkunnugur.

Ítalir sýna þessum leik mikinn áhuga og verður leikurinn sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu héðan og til Ítalíu.  Er útsendingin ein sú viðamesta sem hefur verið frá knattspyrnuleik héðan.

Það verður gaman að sjá íslensku strákana kljást við ítalska liðið.  Sigur gefur íslenska liðinu góða möguleika að komast í úrslitakeppni Evrópumóts U21 landsliða.  Áhorfendur eru hvattir til þess að koma á völlinn og hvetja strákana til sigurs.  Frítt er á völlinn og því um að gera að fjölmenna, föstudaginn 1. september kl. 19:00.

Casiraghi á vef ítalska sambandsins

Casiraghi á uefa.com