• mið. 30. ágú. 2006
  • Landslið

Hópur Norður-Íra er mætir Íslendingum

David_Healy
David_Healy

Lawrie Sanchez, landsliðsþjálfari Norður-Írlands, hefur valið hópinn sem mætir Íslendingum í Belfast laugardaginn 2. september.  Leikurinn er fyrsti leikur beggja þjóða í riðlakeppninni fyrir EM 2008.

Hópinn skipa leikmenn er leika eingöngu í Englandi og Skotlandi og eru því áhugamönnum um ensku knattspyrnuna vel kunnugir.  Þar á meðal fimm leikmenn er leika í ensku úrvalsdeildinni.  Meðal þeirra eru markverðirnir Maik Taylor og Roy Carroll, og kantmaðurinn Keith Gillespie.  Mesti markaskorari þeirra er hinsvegar David Healy (mynd að ofan) er leikur með Leeds.  Hann hefur skorað 20 mörk í 50 leikjum og skoraði m.a. 8 mörk í 10 leikjum á síðasta ári.  Skoraði hann t.d. sigurmark Norður-Íra í frækilegum sigri þeirra á Englendingum.

Hópur Norður-Íra:
Markmenn: Maik Taylor (Birmingham City), Roy Carroll (West Ham United), Michael Ingham (Wrexham).

Varnarmenn: Tony Capaldi (Plymouth Argyle), Stephen Craigan (Motherwell), Chris Baird (Southampton), Aaron Hughes (Aston Villa), Michael Duff (Burnley), Gareth McAuley (Leicester City).

Miðjumenn: Grant McCann (Cheltenham Town), Steven Davis (Aston Villa), Stuart Elliott (Hull City), Ivan Sproule (Hibernian), Keith Gillespie (Sheffield United), Sammy Clingan (Nottingham Forest), Chris Brunt (Sheffield Wednesday).

Framherjar: Warren Feeney (Luton Town), James Quinn (Northampton Town), David Healy (Leeds Utd), Kyle Lafferty (Burnley), Steve Jones (Burnley).

Lawrie_Sanchez

Þjálfari Norður Íra, Lawrie Sanchez, er einnig áhugamönnum um ensku knattspyrnuna nokkuð kunnur.  Hann náði eftirtektarverðum árangri sem þjálfari Wycombe Wanderers á sínum tíma og kom þeim m.a. í undanúrslit ensku bikarkeppninnar árið 2001.  En frægastur er hann líklega fyrir skallamarkið er hann skoraði í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar árið 1988.  Tryggði hann þá Wimbledon sigur á Liverpool og hrista enn margir hausinn yfir þeim úrslitum.  Í þeim leik varði markvörður Wimbledon, Dave Beasant, vítaspyrnu en hann er einnig í þjálfarateymi Norður-Íra og er markvarðaþjálfari.  Þriðji maðurinn í þjálfarateymi Norður-Íra er Terry Gibson og var hann einnig einn af lykilleikmönnum Wimbledon á þessum tíma ásamt því að leika m.a. með Tottenham og Manchester United.

Norður-Írar hafa verið að sækja í sig veðrið uppá síðkastið á alþjóðlegum vettvangi eftir nokkra lægð undanfarin ár.  Sigruðu þeir Finna í vináttulandsleik á dögunum á útivelli og var þjálfari Íslands, Eyjólfur Sverrisson þar á meðal áhorfenda.

Leikurinn við Norður-Íra er sýndur beint á sjónvarpstöðinni Sýn og hefst leikurinn sjálfur kl. 14:00.