Stelpurnar töpuðu gegn Tékkum
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu laut í lægra haldi gegn Tékkum í dag. Lauk leiknum með því að Tékkar skoruðu fjögur mörk gegn tveimur íslenskum. Íslenska liðið leikur gegn Svíum laugardaginn 26. ágúst á Laugardalsvelli.
Strax á annarri mínútu komust gestirnir yfir með ódýru marki eftir hornspyrnu. Það tók íslenska liðið aðeins fjórar mínútur að jafna og var fyrirliðinn, Ásthildur Helgadóttir, þar að verki með góðum skalla. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði laglegt mark á 36. mínútu en Tékkar jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar. Þannig var staðan er liðin gengu til búningsherbergja.
Í seinni hálfleik fundu íslensku stelpurnar aldrei taktinn og þær tékknesku voru sterkari aðilinn. Þær tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum, það síðara sjálfsmark Íslendinga. Þóra Helgadóttir varði einnig vítaspyrnu í seinni hálfleiknum og átti góðan leik í markinu.
Úrslitin mikil vonbrigði fyrir íslenska liðið og vonin um sæti í úrslitakeppni HM 2007 fyrir bí. Það er samt stórt verkefni sem bíður íslenska liðsins því að stelpurnar taka á móti geysisterku sænsku liði á laugardaginn.