Kvennalandsliðið undirbýr sig af krafti
Íslenska kvennalandsliðið í knattspynu undirbýr sig nú af krafti fyrir leikinn gegn Tékkum. Liðið kom saman á þriðjudaginn og æfa einu sinni á dag fram að leik. Leikurinn er á laugardaginn á Laugardalsvelli og er ókeypis inn á völlinn.
Þessi lið eru jöfn að stigum í öðru til þriðja sæti riðilsins og mættust í Tékklandi, 24. september sl. Fóru þá Tékkar með sigur af hólmi, 1-0. Má búast við hörkuleik á milli þessara liða en bæði lið eiga þrjá leiki eftir í riðlinum.
Það er mikilvægt að knattspyrnuáhugamenn fjölmenni á völlinn á laugardaginn og styðji stelpurnar í baráttunni. Stuðningur getur skipt öllu í jafnri viðureign sem þessari. Leikurinn er einnig sýndur beint í Ríkissjónvarpinu fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.