Nýr og breyttur styrkleikalisti FIFA
Nýr styrkleikalisti FIFA hefur verið gefinn út og er hann markaður af nýafstaðinni Heimsmeistarakeppni. Einnig hafa átt sér stað róttækar breytingar í útreikningum á listanum Hefur þetta í för með sér miklar breytingar á styrkleikalistanum.
Meðal þeirra breytinga er gerðar hafa verið á aðferðum við útreikninga, er að einungis er farið 4 ár aftur í tímann í stað 8 ára áður. Leikir síðustu 12 mánuði hafa mest að segja en vægið minnkar eftir því sem lengra líður frá leikjunum.
Brasilíumenn eru samt sem áður efstir á listanum en nýkrýndir heimsmeistarar Ítala koma þar á eftir og færa sig upp um ellefu sæti.
Ísland dettur niður um 8 sæti og situr nú í sæti 107. Hástökkvarar listans eru Miðbaugs-Guinea en þeir færa sig upp um heil 59 sæti í sæti 95. Þeir sem falla hraðast niður eru landslið Saudi Arabíu, sem falla um 47 sæti í það 81. og Luxemborg sem falla um 42 sæti í sæti 194.
Næstu mótherjar Íslendinga í riðlakeppni fyrir EM 2008, Norður-Írar, fara upp um 21 sæti og sitja í sæti 75. Af öðrum mótherjum okkar í riðlinum er að frétta að Danir og Svíar falla bæði um sex sæti. Danir sitja í því 17. og Svíar í 22. sæti. Lettar falla um 12 sæti í það 82. sætið og Lichtenstein falla um eitt sæti og sitja í sæti 124. Þá er aðeins ógetið Spánverja sem heimsækja okkur einmitt 16. ágúst nk. til að spila vináttulandsleik. Þeir falla um 2 sæti en sitja í sjöunda sæti þessa nýja styrkleikaslista FIFA.