• mán. 10. júl. 2006
  • Landslið

Tap gegn Dönum í leik um fimmta sætið

U17_kv_byrjunarlid_Danir_2006
U17_kv_byrjunarlid_Danir_2006
Íslenska stúlknalandsliðið skipað leikmönnum 17 ára og yngri tapaði 2-1 í lokaleik sínum á opna Norðurlandamótinu sem lauk í Finnlandi um helgina.  Íslensku stúlkurnar léku gegn Dönum í leik um 5. sætið á mótinu. Danir komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir jafnaði metin á 35. mínútu.  Skömmu fyrir leikhlé skoruðu dönsku stúlkurnar sigurmark leiksins en einhver misskilingur var hjá dómara leiksins sem taldi að leiktíminn ætti að vera 45. mínútur í stað 40. mínútna.  Í seinni hálfleik átti íslenska liðið í fullu tré við það danska og Anna Þórunn Guðmundsdóttir átti hættulegasta færi leiksins um miðjan hálfleikinn en var óheppin með skot sitt fyrir opnu marki.
 
Íslenska liðið, sem lék undir stjórn nýs þjálfara Jóns Ólafs Daníelssonar, getur verið stolt af árangri sínum á mótinu. Óvenju margir nýliðar voru í hópnum að þessu sinni, eða 13 af 18 leikmanna hóp. Þær voru því að stíga stórt skref á knattspyrnuferli sínum og var það ekki amalegt fyrir þær að sigra í sínum fyrsta leik, gegn Hollendingum, 1-0. Leikaðferð liðsins, 5-3-2, virtist henta íslenska liðinu betur en margar þeirra leikaðferða sem áður hafa verið reyndar og á það sérstaklega við um sóknarlega hlutann, sem oft hefur verið akkilesarhæll íslenska stúlknalandsliðsins.
 
Það verður spennandi að fylgjast með leikmönnum liðsins á komandi árum og sjálfsag leynast þar nokkrir framtíðarleikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.
 
Finnar og Hollendingar skildu jöfn, 3-3, í leik um 7. sæti mótsins en Finnar sigruðu í vítaspyrnukeppni að leik loknum og hreppa því 7. sætið.
 
Byrjunarliðið gegn Dönum
 
Markvörður: Björk Björnsdóttir
Sweeper: Alma Garðarsdóttir
Hafsentar: Lovísa Sólveig Erlingsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir
Hægri bakvörður: Elínborg Ingvarsdóttir
Vinstri bakvörður: Rúna Sif Stefánsdóttir
Tengiliðir: Hlín Gunnlaugsdóttir,fyrirliði, Anna Þórunn Guðmundsdóttir og Laufey Björnsdóttir.
Framherjar: Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir.
 
Skiptingar:
 
Inn            Út
Kristín    Bára (47.)
Karen    Fanndís (60.)
Hrefna   Rúna (65.)
Margét  Hlín (73.)
Ólöf       Laufey (73.)
Harpa    Anna B (73.)
 
U17_kv_byrjunarlid_Danir_2006
 
Mynd: Byrjunarliðið gegn Dönum