• fim. 15. jún. 2006
  • Landslið

Fjórði leikur Íslands og Portúgals

Holland - Ísland 0-1, EM - Rotterdam 24. september 1994
Alidkv1994-0001

Leikur Íslands og Portúgal á sunnudaginn verður fjórði A landsleikur kvenna á milli þjóðanna.  Fyrstu þrír leikirnir hafa allir farið fram í Portúgal og því í fyrsta sinn er þjóðirnar mætast á Íslandi.  Íslenska liðið hefur enn ekki náð að landa sigri gegn Portúgal. 

Það var fyrir réttum 11 árum, þann 15. júní 1995, að þessar þjóðir mættust fyrst.  Var það vináttulandsleikur á milli þjóðanna og fór hann fram í borginni Lemego.  Heimamenn knúðu fram sigur með tvemur mörkum gegn einu.  Guðrún Sæmundsdóttir skoraði mark Íslands í leiknum.

Tveimur dögum síðar, á þjóðhátíðardaginn 1995, áttust þjóðirnar við að nýju og aftur sigruðu Portúgalar.  Lauk leiknum 3-2 og skoruðu Guðlaug Jónsdóttir og Margrét Ólafsdóttir mörk Íslands í leiknum.  Guðlaug er enn í landsliði Íslands og er leikreyndust þeirra leikmanna er mætir Portúgölum á sunnudaginn

Kristinn Björnsson var þjálfari Íslands í þessum leikjum og Vanda Sigurgeirsdóttir bar fyrirliðabandið. 

Þriðji leikur þjóðanna fór svo fram 12. mars árið 1997 og var leikinn í Faro í Portúgal.  Leikurinn var liður í Opna Norðulandamótinu og var leikið við Portúgala um 7.-8. sætið.  Leiknum lauk með markalausu jafntefli en íslenska liðið náði að sigra í vítaspyrnukeppni, 4-3.  Jafnteflið er samt sem áður skráð sem úrslit þessa leiks.

Þegar þarna var komið við sögu var Vanda Sigurgeirsdóttir orðin landsliðsþjálfari og Sigrún Óttarsdóttir var fyrirliði liðsins.

Það er því kominn tími til að leggja Portúgal að velli og tækifærið er á sunnudaginn með góðum stuðningi áhorfenda.  Leikurinn hefst kl. 16:00 og er ókeypis aðgangur.