Sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara verður 15-19. nóvember
KSÍ heldur sérnámskeið fyrir E-stigs þjálfara 15-19. nóvember næstkomandi. Tveir heimsklassa erlendir fyrirlesarar koma til landsins til að kenna á námskeiðinu:
Howard Wilkinson, hefur m.a. verið A-landsliðsþjálfari Englands og gert Leeds að Englandsmeisturum á þjálfunarferli sínum. Howard hefur einnig verið fræðslustjóri enska knattspyrnusambandsins og situr í JIRA nefnd UEFA um þjálfaramenntun. Hann hefur haldið ótal fyrirlestra um allan heim á sviði knattspyrnu og hefur verið mörgum þjóðum til ráðgjafar við að setja upp og skipuleggja þjálfaramenntun í knattspyrnu. Howard mun kenna einn dag á sérnámskeiðinu fyrir E-stigs þjálfara.
Dr. Jens Bangsbo er prófessor í íþróttalífeðlisfræði við Kaupmannahafnar háskóla og gerði doktorsritgerð sína um lífeðlisfræði fyrir knattspyrnu. Hann starfaði sem fitnessþjálfari hjá Juventus á Ítalíu í nokkur ár og sá um líkamlegan undirbúning danska landsliðsins í knattspyrnu fyrir HM 2002 og EURO 2004. Hann hefur haldið ótal fyrirlestra á vegum UEFA og FIFA um allan heim. Hann hefur skrifað bækur um líkamsþjálfun knattspyrnumanna. Jens lék yfir 400 leiki í efstu deild í Danmörku og á að baki A-landsleiki í knattspyrnu fyrir danska landsliðið. Jens Bangsbo mun kenna einn dag á sérnámskeiðinu fyrir E-stigs þjálfara.
KSÍ mun einnig leitast við að fá bæði Howard Wilkinson og Jens Bangsbo til að halda fyrirlestra fyrir aðra íslenska þjálfara á sama tíma og þeir koma til Íslands til að kenna á sérnámskeiðinu. Þeir fyrirlestrar verða auglýstir í haust ef af verður, en báðir hafa þeir tekið vel í það að halda opna fyrirlestra ef tími vinnst til.
Sérnámskeiðið er eingöngu opið þeim 41E-stigs þjálfara sem sóttu um að fara sérleiðina í þjálfaramenntunarkerfi KSÍ. Í hópnum eru margir fremstu þjálfarar landsins. 100% mætingarskylda er á námskeiðið og engar undanþágur verða veittar frá því. Námskeiðið verður aðeins kennt í þetta eina skipti. Við minnum á að staðfest dagsetning námskeiðsins er 15-19.nóvember.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is)