Stórt tap hjá U19 kvenna gegn Englandi
Íslenska U19 kvennaliðið tapaði fyrsta leik sínum í riðlakeppni EM en riðillinn er leikinn í Rúmeníu. Íslenska liðið tapaði 1-7 eftir að hafa komist yfir á annarri mínútu leiksins en þetta er stærsta tap hjá íslenska U19 kvennaliðinu frá upphafi.
Það var fyrirliðinn, Greta Mjöll Samúelsdóttir, sem kom íslenska liðinu yfir eftir aðeins tvær mínútur. En eftir það tók sterkt enskt lið öll völd á vellinum og þegar gengið var til leikhlés var staðan orðin 5-1, Englendingum í vil.
Betur gekk að halda í horfinu í seinni hálfleik en engu að síður tókst enska liðinu að bæta við tveimur mörkum. Lokatölur því 7-1 og stærsta tap hjá íslenska U19 kvennaliðinu staðreynd.
Næsti leikur Íslands í riðlinum er á fimmtdaginn þegar að tekist verður á við Dani. Lokaleikur Íslands í riðlinum er svo við heimamenn í Rúmeníu sen sá leikur er leikinn á laugardaginn.