U21 karla hópurinn sem mætir Andorra
Lúkas Kostic, þjálfari U21 landsliðs karla, hefur valið hópinn sem mætir Andorra ytra, 3. maí í forkeppni Evrópumóts U21 landsliða 2006/2007. Þetta er fyrri leikur þessara þjóða en seinni leikurinn fer fram hér heima 1. júní.
Það lið sem sigrar samanlagt í þessum viðureignum mun etja kappi við Austurríki og Ítalíu seinna á þessu ári. Aðeins verður spilað einu sinni við hvora þjóð og mun útileikurinn verða í Austurríki en heimaleikurinn við Ítali. Það er því til mikils að keppa fyrir strákana sem og alla knattspyrnuáhugamenn hér heima.
Mikil endurnýjun er á hópnum en Davíð Þór Viðarsson er langreyndastur leikmanna með 14 U21 landsleiki. Tveir leikmenn í hópnum, Hrafn Davíðsson og Heiðar Geir Júlíusson, hafa ekki spilað fyrir U21 karla og sjö leikmenn eiga aðeins einn leik að baki. Fjórir leikmenn hópsins leika með erlendum félögum, allir á Bretlandseyjum.