Fyrsti ósigurinn gegn Hollendingum staðreynd
A landslið kvenna beið í kvöld ósigur gegn Hollendingum í vináttulandsleik, en þetta er í fyrsta sinn sem þeim appelsínugulu tekst að vinna sigur á íslenska liðinu. Jafnt var í leikhléi, en sigurmark hollenska liðsins kom í síðari hálfleik.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og skoraði hvort lið um sig eitt mark. Hollendingar náðu forystunni á 30. mínútu, en Hólmfríður Magnúsdóttir jafnaði metin á 41. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Dóru Stefánsdóttur.
Íslenska liðið þótti ekki leika vel í síðari hálfleik og höfðu heimamenn á Oosterenk leikvanginum tögl og hagldir. Sigurmark Hollendinga kom á 58. mínútu leiksins og þrátt fyrir háværan stuðning fjölmargra Leiknismanna, sem eru í æfingaferð í Hollandi, tókst íslenska liðinu ekki að jafna metin, og því er fyrsti sigur Hollands gegn Íslandi í A landsleik kvenna staðreynd.