Öllum 10 félögunum veitt þátttökuleyfi
Leyfisráð samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 9. mars síðastliðinn þátttökuleyfi í Landsbankadeild karla 2006 til handa öllum umsækjendum, þ.e. þeim 10 félögum sem unnið höfðu sér rétt til að leika í deildinni.
Félögin eru: Breiðablik, FH, Fylkir, Grindavík, ÍA, ÍBV, Keflavík, KR, Valur og Víkingur R. og verða þau að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leyfishandbók KSÍ og byggir á sambærilegri handbók sem UEFA hefur gefið út.
Kröfur settar fram í leyfishandbók KSÍ snúa að fimm þáttum. Þeir eru í aðalatriðum:
- Samþykkt áætlun um uppeldisstarf (þjálfun) frá 9 ára aldri
- Fagmennska í stjórnun félags og þjálfun leikmanna (hæfir starfsmenn)
- Aðild að KSÍ (lagaumhverfi)
- Fullbúinn leikvangur með stúku fyrir áhorfendur
- Traust skipulag fjármála (endurskoðaður ársreikningur)
Endurskoðaður ársreikningur og fjárhagsleg leyfisgögn
Með leyfisumsókn fyrir 2006 þurfti að fylgja ársreikningur með fullri áritun endurskoðanda, auk staðfestinga á því að engin vanskil væru hjá viðkomandi félagi við leikmenn og aðra starfsmenn eða vegna félagaskipta. Staðfestingar á þessu bárust frá öllum félögunum.
Einnig þurftu félögin að útbúa svokölluð fjárhagsleg leyfisgögn, sem síðan verða skoðuð af Deloitte og skýrsla gefin um niðurstöður. Leyfisráð hefur lagt til við stjórn KSÍ að þrjú félög verði sektuð vegna mikils dráttar á skilum á fjárhagslegum leyfisgögnum. Einnig voru nokkur félög áminnt þar sem skiladagsetningar leyfisgagna voru ekki virtar.
Aðlögun vegna mannvirkjaframkvæmda – Staða mála
Sum félög sóttu um frest til aðlögunar vegna væntanlegra mannvirkjaframkvæmda við velli, t.d. aðstöðu fyrir áhorfendur. Öll félögin í deildinni hafa fengið staðfestingu frá sínu bæjarfélagi um að úrbætur verði gerðar á aðstöðu áhorfenda, í flestum tilfellum fyrir keppnistímabilið 2007, en í leyfishandbók KSÍ segir:
Hægt er að sækja um aðlögun að þessari reglu fram að upphafi keppnistímabils 2007 og skulu framkvæmdatillögur um úrbætur, staðfestar af viðeigandi félagi og sveitarfélagi fylgja með. Lengri aðlögun verður aðeins veitt við mjög sérstakar aðstæður og aldrei lengur en til upphafs keppnistímabilsins 2010.
Breiðablik
Ný yfirbyggð stúka með 1.500 sætum mun rísa við Kópavogsvöll og verður framkvæmdum lokið fyrir keppnistímabilið 2007. Að framkvæmdum loknum verður áhorfendaaðstaða á Kópavogsvelli fyrir tæplega 1.900 manns.
FH
Núverandi stúka verður stækkuð og yfirbyggð, auk þess sem sætum gegnt núverandi stúku verður fjölgað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum í Kaplakrika ljúki á árunum 2007 og 2008. Að framkvæmdum loknum verður áhorfendaaðstaða á Kaplakrikavelli fyrir allt að 4.000 manns.
Fylkir
Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg og vinna við deiliskipulag í fullum gangi. Gert er ráð fyrir að yfirbyggð stúka með um 1.500 sætum muni rísa við Fylkisvöll.
Grindavík
Allar kröfur um aðstöðu uppfylltar fyrir keppnistímabilið 2006. Við Grindavíkurvöll er nú yfirbyggð stúka með sætum fyrir 1.450 manns.
ÍA
Núverandi stúka verður stækkuð til beggja hliða og sætum fjölgað. Gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki fyrir sumarið, þannig að Akranesvöllur muni uppfylla allar kröfur um aðstöðu fyrir keppnistímabilið 2006. Að framkvæmdum loknum verða sæti fyrir um 1.000 manns í stúkunni.
ÍBV
Viðræður standa yfir við Vestmannaeyjabæ og vinna við deiliskipulag í fullum gangi. Gert er ráð fyrir að yfirbyggð stúka með sætum fyrir 700 manns og önnur aðstaða verði kláruð.
Keflavík
Nýr leikvangur með yfirbyggðri stúku og sætum fyrir allt að 1.700 manns mun rísa í Reykjanesbæ og verður framkvæmdum lokið fyrir keppnistímabilið 2008.
KR
Allar kröfur um aðstöðu uppfylltar fyrir keppnistímabilið 2006. Við KR-völl er nú yfirbyggð stúka með sætum fyrir rúmlega 1.500 manns.
Valur
Nýr leikvangur með yfirbyggðri stúku og sætum fyrir um 1.500 manns er í byggingu að Hlíðarenda og verður tilbúinn fyrir keppnistímabilið 2007. Valur leikur á Laugardalsvelli keppnistímabilið 2006.
Víkingur R.
Unnið er að endurbótum á aðstöðu fjölmiðla og mun þeirri vinnu ljúka fyrir sumarið, þannig að Víkingsvöllur muni uppfylla allar kröfur um aðstöðu fyrir keppnistímabilið 2006. Við Víkingsvöll er nú yfirbyggð stúka með sætum fyrir um 1.150 manns.
Ófullnægjandi menntun þjálfara yngri flokka
Menntun þjálfara yngri flokka var ekki fullnægjandi hjá nokkrum félögum. Um er að ræða svokallaða C-forsendu, sem kemur ekki í veg fyrir að leyfi sé veitt, sé hún ekki uppfyllt. Viðkomandi félög fengu því viðvörun eða sekt skv. neðangreindu ákvæði í leyfishandbók KSÍ:
2.3.3.4 C forsendur
Ef ákveðin C forsenda er ekki uppfyllt skal taka mið af eftirfarandi varðandi viðurlög:
a) Fyrsta skipti – Viðvörun.
b) Annað skipti – Áminning og sekt að upphæð kr 10.000.
c) Eftir það – Áminning og sekt að upphæð kr 25.000.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef forsendan hefur verið uppfyllt í 2 ár samfleytt.
Frekari viðurlög geta átt við í sérstökum tilfellum, eins og að skylda félag til að senda réttindalausan þjálfara á þjálfaranámskeið til að afla sér tilskilinna réttinda innan ákveðinna tímamarka, o.s.frv.
Þátttökuleyfi
Hér að neðan gefur að líta yfirlit yfir afgreiðslu leyfisráðs á leyfisumsóknum félaganna 10, auk fyrirvara og þeirra athugasemda sem gerðar voru við veitingu þátttökuleyfis hjá hverju félagi fyrir sig.
Breiðablik
- Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.
FH
- Þátttökuleyfi veitt með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar á ársreikningi (13. mars) og að gögn sem vantaði berist eigi síðar en 15. mars.
- Áminning og kr. 10.000 sekt þar sem forsenda um menntun þjálfara yngri flokka er ekki uppfyllt annað árið í röð.
- Jafnframt gerir Leyfisráð tillögu til stjórnar KSÍ um að félagið verði sektað vegna dráttar á skilum á fjárhagslegum leyfisgögnum.
- Félagið er minnt á að virða skiladagsetningar í leyfisferlinu.
Fylkir
- Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.
Grindavík
- Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.
ÍA
- Þátttökuleyfi veitt án athugasemda.
ÍBV
- Þátttökuleyfi veitt með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar félagsins á ársreikningi (16. mars).
- Áminning og kr. 10.000 sekt þar sem forsenda um menntun þjálfara yngri flokka er ekki uppfyllt annað árið í röð.
- Jafnframt gerir Leyfisráð tillögu til stjórnar KSÍ um að félagið verði sektað vegna dráttar á skilum á fjárhagslegum leyfisgögnum
- Félagið er minnt á að virða skiladagsetningar í leyfisferlinu.
Keflavík
- Þátttökuleyfi veitt.
- Félagið er minnt á að virða skiladagsetningar í leyfisferlinu.
KR
- Þátttökuleyfi veitt.
- Áminning og kr. 10.000 sekt þar sem forsenda um þjálfara yngri flokka er ekki uppfyllt annað árið í röð.
Valur
- Þátttökuleyfi veitt.
- Áminning og kr. 10.000 sekt þar sem forsenda um menntun þjálfara yngri flokka er ekki uppfyllt annað árið í röð.
- Jafnframt gerir Leyfisráð tillögu til stjórnar KSÍ um að félagið verði sektað vegna dráttar á skilum á fjárhagslegum leyfisgögnum.
- Félagið er minnt á að virða skiladagsetningar í leyfisferlinu.
Víkingur R.
- Þátttökuleyfi veitt með fyrirvara um að gögn sem vantaði berist eigi síðar en 15. mars.
- Viðvörun þar sem forsenda um menntun þjálfara yngri flokka er ekki uppfyllt.
- Félagið er minnt á að virða skiladagsetningar í leyfisferlinu.
Styrkur frá KSÍ til félaga
Félögin í Landsbankadeild karla hljóta styrk frá Knattspyrnusambandi Íslands að upphæð kr. 250.000 vegna vinnu við leyfiskerfi KSÍ, en Breiðablik hlýtur kr. 250.000 að auki þar sem félagið gengur nú í fyrsta sinn í gegnum leyfiskerfið. Önnur félög fengu sams konar greiðslu þegar þau gengu í fyrsta sinn í gegnum kerfið.
KSÍ óskar leyfishöfum í Landsbankadeildinni til hamingju og þakkar þeim mikið og gott starf við undirbúning leyfisumsóknar!