Eins marks tap gegn Englandi
A landslið kvenna tapaði í kvöld í vináttulandsleik gegn Englendingum með einu marki gegn engu. Eina mark leiksins kom þegar um 10 mínútur voru til leiksloka við gríðarlegan fögnuð áhorfenda.
Aðsóknarmet var sett á leiknum 9.616 manns voru á Carrow Road, met á vináttulandsleik kvenna í Englandi.
Markalaust var í fyrri hálfleik þrátt fyrir mikla sókn enska liðsins, en íslenska vörnin var traust með Þóru B. Helgadóttur í markinu, sem varði oft vel. Margrét Lára Viðarsdóttir átti reyndar besta færi hálfleiksins, komst ein í gegnum ensku vörnina snemma leiks, en var of lengi að athafna sig.
Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum, sem skiptust á að sækja, en eins og fyrr segir voru það Englendingar sem geru eina mark leiksins, eftir hornspyrnu á 79. mínútu.
Frammistaða íslenska liðsins í leiknum var góð. Vörnin var traust allan leikinn og litlu mátti muna að sóknarlotur liðsins bæru árangur í síðari hálfleik.