Vináttuleikur gegn Spánverjum í ágúst
KSÍ hefur samið við Knattspyrnusamband Spánar um að A-karlalandslið þjóðanna leiki vináttuleik á Laugardalsvelli 16. ágúst næstkomandi. Liðin eru jafnframt saman í riðli í undankeppni EM 2008 og mætast tvisvar sinnum á næsta ári í þeirri keppni.
Spánverjar eru jafnan taldir vera með eitt af sterkustu landsliðum heims, en hafa þó aðeins einu sinni unnið stórmót - Evrópukeppni landsliða 1964, þrátt fyrir að og hafa leikið í öllum úrslitakeppnum EM landsliða frá upphafi.
Spænska liðið hefur á að skipa mörgum frábærum leikmönnum - Raul, Carlos Puyol, Fernando Torres, Xabi Alonso, svo einhverjir séu nefndir - sem leika með nokkrum af sterkustu félagsliðum Evrópu og því er óhætt að segja að koma liðsins hingað til lands sé hvalreki fyrir íslenskt knattspyrnuáhugafólk. Þjálfari spænska liðsins er hinn gamalkunni Luis Aragones (á mynd), sem hefur m.a. þjálfað Atletico Madrid, Valencia og Barcelona.