Fámennasta þjóðin á HM frá upphafi
Trinidad & Tobago verður í sumar fámennasta þjóðin sem tekur þátt í úrslitakeppni HM frá upphafi. Í landinu býr 1,1 milljón manna á rúmlega 5 þúsund ferkílómetrum.
Þekktasti leikmaður liðsins er á vafa Dwight Yorke, sem lék í framlínu liða eins og Aston Villa, Manchester United, Blackburn og Birmingham, en leikur nú með Sydney United í Ástralíu og stjórnar miðjuspilinu í landsliði sínu.
Það leit þó ekki út fyrir að "Soca Warriors", eins og þeir eru gjarnan kallaðir, myndu komast í úrslitakeppnina.
Eftir að hafa aðeins ná einu stigi úr fyrstu þremur leikjum sínum í 6 liða milliriðli keppninnar í Karabíska hafs, Mið- og Norður-Ameríku (CONCACAF) var Hollendingurinn Leo Beenhakker fenginn til að stýra liðinu.
Undir hans stjórn náði liðið 4. sæti riðilsins og tryggði þar með sæti í umspili gegn fimmta besta liðinu í Asíu, Bahrain.
Eftir 1-1 jafntefli á heimavelli í Port of Spain náðist eins marks sigur í síðari leiknum, sem fram fór í Manama í Bahrainn og var það Dennis Lawrence, leikmaður Wrexham í ensku deildarkeppninni, sem skoraði sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu.
Flestir leikmenn landsliðs Trinidad & Tobago leika með erlendum liðum og reyna margir fyrir sér á ári hverju, aðallega hjá félögum á Bretlandseyjum. Síðasti landsliðsmaðurinn til að fá samning á Bretlandseyjum var Densill Theobald, sem gekk til liðs við skoska liðið Falkirk.
Atvinnumannadeild var stofnuð í landinu fyrir nokkrum árum síðan og hefur hún átt nokkuð undir högg að sækja, en eftir að landsliðið komst á HM hafa vinsældir deildarinnar vaxið mjög hratt og fjárstreymi aukist. Aðsókn á leiki deildarinnar hefur vaxið jafnt og þétt og fyrirtæki hafa sóst mjög eftir því að eiga samstarf við deildina og félögin í henni.
Trinidad & Tobago og Ísland mætast í vináttulandsleik á Loftus Road í Lundúnum 28. febrúar næstkomandi. Íslenski landsliðshópurinn verður væntanlega tilkynntur í byrjun næstu viku, fyrsti hópurinn sem Eyjólfur Sverrisson tilkynnir síðan hann tók við stjórn liðsins, og hópur Trinidad-manna verður væntanlega tilkynntur um svipað leyti.