Dagur sjúkraþjálfunar 3. febrúar
Föstudaginn 3. febrúar mun Félag íslenskra sjúkraþjálfara (FÍSÞ) halda Dag sjúkraþjálfunar frá kl. 08.30 – 15.30 í fundarsölum ÍSÍ að Engjavegi 6 í Reykjavík. Dagurinn byggir á fræðslufyrirlestrum, kynningu á rannsóknarniðurstöðum og umræðum um þjálfun, hæfingu og endurhæfingu.
Fjöldi fróðlegra erinda verða í boði og má þar m.a. nefna niðurstöður úr doktorsverkefni Dr. Ólafar Önnu Steingrímsdóttur sjúkraþjálfara sem fjallar um tengsl kvartana og vöðvaviðbragða hjá vinnandi fólki.
Sérþekking sjúkraþjálfara á hreyfi- og stoðkerfi líkamans hefur skapað aukna þörf fyrir þjónustu þeirra. Sífellt algengara er að læknar beini sjúklingum sínum til sjúkraþjálfara vegna góðrar reynslu lækna og almennings á þeim meðferðarúrræðum sem sjúkraþjálfarar beita.
Sjúkraþjálfarar gegna því mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu, bæði innan heilbrigðiskerfisins og utan þess í tengslum við íþróttir, þjálfun og forvarnir.
Gert er ráð fyrir að Dagur sjúkraþjálfunar verði haldinn árlega um ókomin ár þar sem nýjungar innan fagsins verða kynntar og þekkingarmiðlun meðal félagsmanna verði efld enn frekar. Dagur sjúkraþjálfunar er opinn öðrum fagstéttum sem áhuga hafa á að kynnast viðfangsefnum sjúkraþjálfara.
Sjá einnig á heimasíðu FÍSÞ - www.physio.is.