Aldrei mætt Trinidad og Tobago áður
Íslenska landsliðið hefur aldrei áður mætt liði Trinidad og Tobago, en eins og greint hefur verið frá munu liðin mætast í vináttulandsleik á Loftus Road í Lundúnum, heimavelli enska liðsins QPR, 28. febrúar næstkomandi.
Þjálfari landsliðs Trinidad og Tobago er Hollendingurinn Leo Beenhakker, sem er á meðal virtari þjálfara í knattspyrnuheiminum, enda hefur hann þjálfað lið eins og Real Madrid og Ajax.
Frægasti leikmaður liðsins er án efa Dwight Yorke, sem lék m.a. í framlínu Aston Villa og Manchester United um árabil og hefur einnig leikið með Blackburn og Birmingham, en leikur nú í Ástralíu. Yorke leikur reyndar á miðjunni hjá landsliði sínu og var lykilmaður í þeirri stöðu í undankeppninni.
Á meðal annarra leikmanna sem vert er að nefna eru markvörðurinn Shaka Hislop, framherjinn Stern John og tengiliðurinn Russell Latapy.
Framherjinn Errol Edderson McFarlane, sem var í herbúðum Fylkis og Breiðabliks um skeið, hefur leikið 1 landsleik fyrir Trinidad og Tobago.
Nokkuð algengt er að lið utan Evrópu sem hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppni HM leiki vináttulandsleiki í Evrópu í undirbúningi sínum fyrir úrslitakeppnina, sérstaklega þegar úrslitakeppnin fer fram í þeirri heimsálfu. Sem dæmi má nefna að lið Englands og Argentínu léku nýverið í Sviss og einnig að fyrir HM 98 í Frakklandi léku bæði Suður-Afríka og Saudi Arabía við íslenska landsliðið, í Þýskalandi og Frakklandi.
Þess má geta að Trinidad og Tobago er aðeins rúmir 5.000 km2 að stærð , en þar búa 1,1 milljón manna.