KSÍ heldur UEFA B próf laugardaginn 21. janúar
KSÍ heldur UEFA B próf í þjálfaramenntun laugardaginn 21. janúar klukkan 10.00 í fundarsal D og E í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal. Þetta er í þriðja sinn sem prófið fer fram, en alls hafa rúmlega 200 knattspyrnuþjálfarar á Íslandi UEFA B þjálfararéttindi.
Réttindi til að taka prófið hafa allir þjálfarar sem hafa lokið fyrstu 4 þjálfarastigum KSÍ (KSÍ I, II, III og IV) á fullnægjandi hátt og jafnframt skilað inn fullnægjandi verkefni af KSÍ III þjálfaranámskeiðinu.
KSÍ hefur ákveðið að bjóða upp á undirbúningsfund fyrir þjálfara sem ætla að þreyta prófið. Undirbúningsfundurinn fer fram þriðjudaginn 10. janúar klukkan 19.30 í fundarsal E í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal. Á fundinum verður farið í uppsetningu prófsins og þjálfarar hafa tækifæri til að spyrja spurninga.
KSÍ mun bjóða þeim sem búa á landsbyggðinni að taka prófið í sinni heimabyggð og áríðandi er að viðkomandi þjálfarar skrái sig sem fyrst.
Próftöku- og skírteinisgjald er 2.500 krónur og skal greiðast sem fyrst eftir skráningu.
Skráning í prófið er hafin og fer fram á tölvupósti (siggi@ksi.is). Taka þarf fram við skráningu fullt nafn, fæðingarstað og hvaða stærð viðkomandi notar af regnjakka.
UEFA B þjálfararéttindin veita réttindi til að þjálfa alla yngri flokka á Íslandi og er undanfari UEFA A þjálfaragráðunnar sem KSÍ hefur nýlega fengið samþykki til að veita.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is) í síma 510-2909.