Landsleikir komnir í gagnagrunn KSÍ
Skrifstofa KSÍ hefur á þessu ári unnið í því að koma öllum eldri úrslitum inn í gagnagrunn sambandsins. Allir landsleikir Íslands frá upphafi í öllum landsliðum hafa verið skráðir, ásamt öllum leikjum í efstu deild karla.
Ýmislegt er þó óunnið í þessum málum og er nú vinna hafin við að skrá inn leikskýrslur úr leikjum A landsliða karla og kvenna aftur í tímann. Mikið af upplýsingum vantar úr mótum landsliða, s.s. úrslit og dagsetningar annarra leikja en þeirra sem Ísland tók þátt í, aðallega úr Norðurlandamótum yngri landsliða. Leitað hefur verið liðsinnis UEFA, FIFA og knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum við upplýsingaöflun.
Í sumar voru allir leikir í efstu deild karla frá upphafi skráðir inn í kerfið og því er nú hægt að skoða úrslit leikja og stöðutöflur allt aftur til ársins 1912, þegar fyrsta Íslandsmótið fór fram. Leikskýrslur hafa þó ekki verið skráðar, en stefnt er að því í náinni framtíð að skrá leikskýrslur í mótum inn í gagnagrunninn eins langt aftur og mögulegt er.
Vonandi geta knattspyrnuunnendur og áhugafólk haft gagn og gaman af þessum upplýsingum, enda er það stefna KSÍ að gagnagrunnurinn verði eins aðgengilegur og einfaldur í notkun og mögulegt er.
Til að skoða leiki aftur í tímann má annað hvort velja viðkomandi landslið hér til vinstri og smella á Leikjalisti, eða velja Mót hér að ofan og síðan Mótalisti. Einnig er hægt að velja Leikir félaga undir Mót og afmarka leitina við Ísland (eða mótherja, ef leitað er að úrslitum gegn tiltekinni þjóð).