• fim. 10. nóv. 2005
  • Landslið

Vináttuleikur A-kvenna gegn Hollandi í apríl

Íslenska liðið gegn Hollandi í Den Ham 5. júní 1996
Alidkv1996-0002

Ákveðið hefur verið að A landslið kvenna leiki vináttulandsleik gegn Hollendingum ytra 12. apríl næstkomandi. Leikurinn er liður í undirbúningi fyrir leiki í undankeppni HM kvenna í maí og júní 2006.

Ísland og Holland hafa mæst fjórum sinnum áður og hefur íslenska liðið haft sigur í öllum leikjunum. Síðast mættust liðin í undankeppni EM 1997 og vann íslenska liðið báða leikina með tveimur mörkum gegn engu.

Hollendingar hafa þó tekið miklum framförum undanfarin ár og hafa til dæmis unnið báða leiki sína hingað til í sínum riðli í undankeppni HM 2007, gegn Austurríkismönnum og Frökkum, en síðarnefnda liðið er talið vera með eitt sterkasta liðið í álfunni.

Hollenska liðið leikur þriðja leik sinn í undankeppni HM 17. nóvember næstkomandi, gegn Englendingum á heimavelli, en Englendingar eru líkt og Hollendingar með 6 stig eftir tvo leiki í keppninni.