Vinnufundur um nýja leyfishandbók UEFA
Í vikunni fór fram fundur UEFA um nýja handbók vegna leyfiskerfisins, sem væntanlega verður tekin í gagnir hér á landi fyrir keppnistímabilið 2007. Fulltrúar KSÍ á fundinum, sem fram fór í Vín í Austurríki, voru Ómar Smárason leyfisstjóri og Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs og stjórnarmaður KSÍ.
Farið var yfir helstu atriði í nýrri leyfishandbók UEFA, útgáfu 2.0. Helstu breytingar frá fyrri handbók voru kynntar, farið yfir þær leiðir sem samböndin geta farið við innleiðingu leyfiskerfis og rætt um það ferli sem knattspyrnusamböndin þurfa að fara í gegnum þegar þau hefja vinnu við sínar handbækur.
Leyfishandbók UEFA er notuð sem undirstaða fyrir handbækur hvers lands um sig. Hvert land um sig getur síðan sótt um undanþágur fyrir ákveðin atriði, t.d. frá kröfum um lágmarksfjölda sæta á leikvöngum. Þannig sótti KSÍ um undanþágur frá ákveðnum atriðum fyrir leyfiskerfi KSÍ.
Vinna við nýja leyfishandbók KSÍ er þegar hafin og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu lljúki næsta haust. Fyrir keppnistímabilið 2007 munu því félögin sem leika í Landsbankadeild karla vinna umsóknir sínar um þátttökuleyfi samkvæmt þeim kröfum sem settar verða fram í leyfishandbók KSÍ, útgáfu 2.0.