• fös. 04. nóv. 2005
  • Fræðsla

Norræn grasrótarráðstefna í Helsinki

Norðurlönd
nordurlond_kort

Dagana 28. og 29. október fór fram í annað sinn norræn ráðstefna um knattspyrnu í grasrótinni - Grassroots. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Helsinki í Finnlandi og var Halldór Örn Þorsteinsson, starfsmaður mótamála, fulltrúi KSÍ.

Á ráðstefnunni var í meginatriðum fjallað um knattspyrnu í "grasrótinni", stöðu hennar nú og í framtíðinni. Þegar talað er um Grasrótina er t.d. átt við knattspyrnuiðkun barna.

Fulltrúar landanna fluttu kynningu á stöðu mála í hverju landi fyrir sig, myndaðir voru umræðuhópar og reynt að vinna að því að unnið sé eftir sameiginlegum viðmiðunum í öllum löndunum.

Einnig var fjallað um UEFA Grassroots charter, eða Grasrótarsáttmála UEFA, sem hefur verið í vinnslu undanfarin þrjú ár og kemur væntanlega til framkvæmdar á næsta ári. Megininntak Grasrótarsáttmálans eru viðmiðanir aðildarlanda UEFA í sínu grasrótarstarfi og taka á ýmsum atriðum, s.s. skipulagning knattspyrnuskóla fyrir yngstu börnin, verndun barna í knattspyrnu, og margt fleira.

Á ráðstefnunni í Helsinki voru fulltrúar allra Norðurlandanna - Íslands, Færeyja, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands - og var um að ræða fólk sem starfar einmitt í grasrótinni hjá samböndunum.