• fös. 14. okt. 2005
  • Landslið

Eyjólfur Sverrisson ráðinn þjálfari A landsliðs karla

Eyjólfur Sverrisson
U21-2004-0001

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Eyjólf Sverrisson sem þjálfara A landsliðs karla. Samningurinn er til næstu tveggja ára - gildir frá 1. nóvember 2005 til 31. október 2007.

Eyjólfur lék 66 A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1990 til 2001 og skoraði í þeim 10 mörk. Fyrirliðabandið bar hann í 19 leikjum.

Ferill Eyjólfs í U21 landsliðinu er ekki síður glæsilegur, 6 mörk í 6 leikjum, þar af skoraði hann öll mörk Íslands í 4-0 sigri á Finnum í undankeppni EM U21 landsliða á Akureyri 1989.

Eyjólfur, eða Jolli eins og hann er oft kallaður, hóf atvinnumannaferil sinn með Stuttgart í Þýskalandi árið 1990 og varð meistari með þeim keppnistímabilið 1991-1992. Hann lék með Stuttgart út keppnistímabilið 1993-1994, en hélt þá til Tyrklands og lék með Besiktas í eitt ár, þar sem hann varð Tyrklandsmeistari. Næst lá leiðin aftur til Þýskalands til Herthu Berlin þar sem Eyjólfur lék við góðan orðstír í fjölmörg ár áður en hann lagði skóna á hilluna vorið 2003.

Tindastóll á Sauðárkróki er eina íslenska félagið sem Eyjólfur hefur leikið með og skoraði hann alls 66 mörk fyrir félagið í neðri deildum Íslandsmótsins, en hann lék aldrei í efstu deild hér á landi.

Haustið 2003 tók Eyjólfur við þjálfun U21 landsliðs karla og stjórnaði liðinu með góðum árangri í undankeppni EM. Jafnframt hefur hann stjórnað sparkvallaátaki KSÍ síðustu tvö árin og hefur hann gert það með miklum sóma.

Eyjólfur lauk UEFA-A prófi í menntun knattspyrnuþjálfara í Þýskalandi í byrjun þessa árs. Námskeiðið var sérstaklega ætlað fyrrverandi atvinnumönnum í knattspyrnu.

Undankeppni EM 2008 hefst haustið 2006.

Dregið verður í riðla 27. janúar næstkomandi.