• mið. 12. okt. 2005
  • Landslið

Sænskur sigur á baráttuglöðu liði Íslands

Heimsmeistarakeppnin 2006
hm_2006_logo

Baráttuglaðir Íslendingar biðu lægri hlut gegn sterku liði Svía í lokaumferð undankeppni HM 2006, en liðin mættust á Råsunda í Stokkhólmi í dag. Íslenska liðið tók forystuna í leiknum, en Svíar stóðu uppi sem sigurvegarar, 3-1.

Íslenska barðist af krafti og greinilegt var að menn ætluðu að selja sig dýrt, því baráttan í leikmönnum liðins var gríðarleg frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Kári Árnason náði forystunni fyrir íslenska liðið með þrumufleyg af löngu færi á 25. mínútu leiksins, hans fyrsta mark fyrir landsliðið, og greinilegt var að Svíum var brugðið.

Zlatan Ibrahimovic jafnaði þó metin fimm mínútum síðar með þrumuskoti og skömmu fyrir leikhlé sendi hann glæsilega sendingu á Henrik Larsson, sem kom heimamönnum yfir með laglegu marki.

Svíar voru meira með boltann í síðari hálfleik, en íslenska liðið varðist vel og átti nokkrar ágætis sóknir, auk þess sem baráttan var alltaf til staðar. Varamaðurinn Kim Källström tryggði sigur Svía á lokamínútunum með skoti frá vítateig.

Þrátt fyrir tapið lék íslenska liðið nokkuð vel, menn börðust eins og ljón allan tímann og gáfi Svíunum ekkert eftir í baráttu um boltann.

Svíar og Króatar höfnuðu í tveimur efstu sætum riðilsins og leika í lokakeppni HM 2006 í Þýskalandi næsta sumar. Ísland hafnaði í 5. sæti riðilsins með 4 stig.