• þri. 11. okt. 2005
  • Landslið

Þrír af yngri leikmönnum Íslands leika í Svíþjóð

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í landsleik gegn Króötum
Island-Kroatia2005-0158

Þrír leikmenn í íslenska landsliðshópnum sem mætir Svíum í lokaumferð undankeppni HM 2006 í Stokkhólmi á miðvikudag leika með sænskum liðum.  Allir eru þeir meðal yngstu leikmanna í hópnum - þeir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen Jónsson - og allir gætu þeir verið í byrjunarliðinu á Råsunda.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, leikmaður Halmstad, er um þessar mundir markahæsti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni, Allsvenskan.  Hann varð fyrir meiðslum í síðasta leik með félagsliði sínu og gat því ekki verið með í vináttulandsleiknum gegn Pólverjum, en líklegt þykir að hann verði með gegn Svíum og þá jafnvel í byrjunarliði.

Kári Árnason hefur átt fast sæti á miðjunni í liði Djurgården, sem stefnir nú hraðbyri að sænska meistaratitlinum.  Hann var í byrjunarliði Íslands gegn Pólverjum og búast má við því að svo verði einnig á Råsunda á miðvikudag. 

Félagi Kára hjá Djurgården, Sölvi Geir Ottesen Jónsson, lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd síðastliðinn föstudag í Varsjá og stóð sig vel.  Sölvi hefur mátt verma varamannabekkinn hjá félagsliði sínu að undanförnu, en allar líkur eru á því að hann verði í vörninni gegn Svíum.

Þessir þrír leikmenn eru allir á meðal yngstu leikmanna í íslenska hópnum, og allir léku þeir fyrstu landsleiki sína á þessu ári.