Fjögur mörk gegn Svíum og glæsilegur sigur í höfn
U21 landslið karla lagði Svía að velli á glæsilegan hátt þegar liðin mættust í lokaumferð undankeppni EM í Eskilstuna í Svíþjóð fyrr í dag, þriðjudag. Lokatölur leiksins voru 4-1 og gerði það að verkum að Svíar misstu af 2. sæti riðilsins.
Á sama tíma gerðu Ungverjar 2-2 jafntefli við Króata í Búdapest og komust þar með upp fyrir Svía. Það verða því Króatar og Ungverjar sem halda áfram í 16-liða úrslit keppninnar.
Íslenska liðið lék geysilega vel gegn Svíum í opnum og fjörugum leik þar sem bæði lið sköpuðu sér góð marktækifæri. Okkar piltar voru svo sannarlega á skotskónum í dag og tvö mörk Harðar Sveinssonar skömmu fyrir hlé setti íslenska liðið í góða stöðu fyrir seinni hálfleikinn.
Bjarni Þór Viðarsson jók muninn fyrir Ísland þegar um tíu mínútur voru til leiksloka, í sínum fyrsta leik fyrir U21 landsliðið og þar með má segja að sigurinn hafi verið í höfn. Svíarnir náðu að klóra í bakkann á lokamínútu leiksins, en þó reyndist nægur tími fyrir Garðar Gunnlaugsson til að bæta við fjórða marki Íslands áður en yfir lauk.
Frábær sigur hjá íslenska liðinu og það verður svo sannarlega gaman að fylgjast með þessum ungu og efnilegu leikmönnum á næstu árum.
Ísland hafnaði í 4. sæti riðilsins með 13 stig úr leikjunum tíu.