• þri. 11. okt. 2005
  • Landslið

Fimm leikmenn í sænska hópnum leika í Svíþjóð

Teddy Lucic
teddy_lucic

Fimm leikmenn í 22 manna hópi Svía sem tilkynntur var fyrir leikina gegn Króötum og Íslendingum leika með sænskum félagsliðum. Sex leikmenn í 20 manna hópi Íslands leika hér á landi.

Hlutfall leikmanna í heimalandinu er því svipað hjá báðum þjóðum, en athyglisvert er að á meðan aðeins fimm landsliðsmenn Svía leika í Allsvenskan, þá leika þar þrír liðsmenn íslenska landsliðsins.

Leikmenn sænska landsliðsins sem leika í sænsku deildinni eru þeir Teddy Lucic (Häcken), Niclas Alexandersson (Göteborg), Daniel Andersson (Malmö), Mattias Jonsson (Djurgården) og Anders Svensson (Elfsborg). Þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að hafa áður leikið í nokkrum af "stóru" deildunum í Evrópu - ensku úrvalsdeildinni, Serie-A á Ítalíu og þýsku Bundesligunni.

Íslendingarnir þrír eru Gunnar Heiðar Þorvaldsson hjá Halmstad, Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen Jónsson, en þeir tveir síðastnefndu leika með Djurgården. Rétt er að geta þess að væru Pétur Hafliði Marteinsson og Hjálmar Jónsson ekki meiddir væru þeir mögulega einnig í íslenska hópnum, þannig að þá væru "Svíarnir" fimm.

Fleiri íslenskir leikmenn leika reyndar í Svíþjóð, meðal þeirra eru Jóhann B. Guðmundsson hjá Örgryte og Stefán Þórðarson hjá Norrköping.