Góður sigur á Bosníumönnum
U19 landslið karla vann í dag, föstudag, góðan 2-0 sigur á liði Bosníu/Hersegóvínu í lokaumferð síns riðils í undankeppni EM, en riðillinn fór einmitt fram í Sarajevo í Bosníu. Bæði mörk íslenska liðsins komu seint í leiknum.
Einn leikmaður í hvoru liði um sig fékk að líta rautt spjald í leiknum. Bosníumenn misstu mann af velli á 50. mínútu og 20 mínútum síðar fékk Ari Freyr Skúlason reisupassann.
Fyrirliðinn Theodór Elmar Bjarnason náði forystunni á 85. mínútu og Arnór Smárason tryggði íslenskan sigur tveimur mínútum síðar.
Íslenska liðið stjórnaði leiknum allan tímann og var sigurinn fyllilega verðskuldaður, enda skapaði liðið sér fjölmörg marktækifæri og hefði með réttu átt að fá a.m.k. eina vítaspyrnu í leiknum.
Ísland hafnaði í 3. sæti riðilsins, en Bosníumenn höfnuðu í neðsta sæti, án stiga. Króatar og Búlgarar, sem gerðu markalaust jafntefli í dag, höfnuðu í tveimur efstu sætunum og komust því áfram í milliriðla.