• fös. 30. sep. 2005
  • Landslið

Aldrei unnið Pólverja, en tvisvar unnið Svía

Ríkharður skorar gegn Svíum
melavollurinn

A landslið karla leikur tvo landsleiki í október - vináttulandsleik gegn Pólverjum og leik í undankeppni HM 2006 gegn Svíum.  Íslenska liðið hefur aldrei hampað sigri gegn Pólverjum, en hefur tvisvar sinnum lagt Svía að velli.

Ísland og Pólland hafa mæst fjórum sinnum áður, þar af tvisvar sinnum á Laugardalsvelli.  Síðasta heimsókn Pólverja á Laugardalsvöll var í ágúst 2001 í vináttulandsleik sem lauk með 1-1 jafntefli.  Pólverjar höfðu hampað sigri í þau þrjú skipti sem liðin höfðu mæst fram að því og því var þetta í fyrsta skipti sem pólska liðinu tókst ekki að sigra það íslenska.

Ísland og Svíþjóð hafa mæst alls 11 sinnum í A landsleik karla.  Síðasta viðureignin var fyrri leikur liðanna í undankeppni HM 2006, á Laugardalsvelli haustið 2004.  Þeim leik lauk með 4-1 sigri Svíanna, sem eru efstir í 8. riðli.

Ísland hefur tvívegis lagt Svía að velli í viðureignum þjóðanna.  Fyrra skiptið var í sögufrægum vináttulandsleik á Melavellinum í Reykjavík árið 1951, þegar Ríkharður Jónsson gerði öll fjögur mörk Íslands í 4-3 sigri.  Næsti sigur kom ekki fyrr en tæplega hálfri öld síðar, eða í ágúst árið 2000, en þá hafði íslenska liðið betur, 2-1 með mörkum frá Ríkharði Daðasyni og Helga Sigurðssyni.