• fim. 29. sep. 2005
  • Landslið

Annar stórsigurinn í röð hjá U19 kvenna

EM U19 landsliða kvenna
em_u19_kvenna

U19 landslið kvenna vann í dag, fimmtudag, annan stórsigurinn í röð í undankeppni EM.  Lið Bosníu/Hersegóvínu var lagt að velli með fimm mörkum gegn engu og þar með er sæti íslenska liðsins í milliriðli öruggt.  Greta Mjöll Samúelsdóttir fór á kostum í liði Íslands í dag og gerði þrjú mörk (leiðrétt), en hún gerði tvö mörk í leiknum gegn Georgíu á þriðjudag.

Eftir leiki dagsins eru bæði Ísland og Rússland með 6 stig, en Bosnía/Hersegóvína og Georgía eru án stiga.  Rússar lögðu Georgíu í dag á hreint ótrúlegan hátt, því þær rússnesku skoruðu 21 mark í leiknum!  Tvö efstu liðin fara áfram í milliriðla og því eru Ísland og Rússland örugg með áframhaldandi þátttöku í keppninni. 

Eins og tölurnar gefa til kynna hafði íslenska liðið yfirburði í leiknum og leiddi í hálfleik með mörkum frá fyrirliðanum Gretu Mjöll og Katrínu Ómarsdóttir.  Katrín jók forystuna fyrir íslenska liðið í upphafi síðari hálfleiks, hennar fjórða mark í fyrstu tveimur leikjum riðilsins, og Greta Mjöll fullkomnaði glæsilegan íslenskan sigur með tveimur mörkum um miðbik hálfleiksins.

Í lokaumferðinni á laugardag mætast Bosnía/Hersegóvína og Georgía annars vegar, en Ísland og Rússland hins vegar, sem er þá hreinn úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins.