• fös. 23. sep. 2005
  • Landslið

Öruggur sex marka sigur gegn Andorra

EM U17 landsliða karla
em_u17_karla

U17 landslið karla vann í dag, föstudag, öruggan 6-0 sigur á Andorra í undankeppni EM, en riðillinn fer einmitt fram þar í landi. Í riðlinum leika einnig Svíþjóð og Tékkland, en þau lið mætast síðar í dag.

Lið Andorra pakkaði í vörn frá upphafi leiks, gerði engar tilraunir til að sækja, og stóðst áhlaup íslenska liðsins að mestu leyti í fyrri hálfleik. Þó tókst Viktori Unnari Illugasyni að skora fyrir íslenska liðið.

Í síðari hálfleik brast varnarmúr heimamanna og flóðgáttirnar opnuðust. Guðmundur Reynir Gunnarsson, Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu sitt markið hver og Rafn Andri Haraldsson gerði tvö mörk úr vítaspyrnum.

Sigur íslenska liðsins var aldrei í neinni hættu og aðeins spurning um hversu stór hann yrði, en 6-0 og þrjú stig er mjög góð leið til að hefja keppni í riðlinum.

Næsti leikur íslenska liðsins er á sunnudag gegn Svíum og hefst hann kl. 10:00 að íslenskum tíma.