Grátlegt tap gegn Búlgörum í Sofia
Íslenska landsliðið tapaði fyrir Búlgaríu í kvöld, miðvikudagskvöld, með þremur mörkum gegn tveimur í leik í undankeppni HM 2006 sem fram fór í Sofia. Fjölmörg færi voru á báða bóga í leiknum og fóru leikmenn íslenska liðsins illa með þrjú algjör dauðafæri.
Tvö fyrstu mörk leiksins voru íslensk og komu á fyrsta stundarfjórðungnum. Fyrst skoraði Grétar Rafn Steinsson þegar hann komst einn í gegn eftir mistök í búlgörsku vörninni og Hermann Hreiðarsson jók forystuna með góðum skalla eftir aukaspyrnu Eiðs Smára Guðjohnsen.
Dimitar Berbatov minnkaði muninn fyrir heimamenn nokkrum mínútum síðar, en ekki var skorað meira í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik skiptust liðin á að sækja og Búlgarir jöfnuðu metin þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka með marki frá Iliev. Sigurmarkið kom svo beint úr aukaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok og var þar að verki Martin Petrov, sem skapaði oft mikinn usla í íslensku vörninni með hraða sínum og leikni.
Íslenska liðið skapaði sér aragrúa af góðum færum í leiknum og hér er ekki aðeins átt við þokkaleg færi, heldur misnotuðu Eiður Smári, Hermann og Heiðar Helguson allir algjör dauðafæri, auk þess sem Kári Árnason var togaður niður í vítateig Búlgara, en ekkert dæmt.
Okkar menn fengu góð tækifæri til að auka við forystu liðsins, en allt kom fyrir ekki. Grátlegt 2-3 tap gegn liði Búlgara er staðreynd.
Ísland á nú aðeins einn leik eftir í undankeppni HM 2006, útileik gegn Svíum 12. október. Eiður Smári og Hermann fengu að líta gula spjaldið í leiknum gegn Búlgörum og hjá báðum leikmönnum er um að ræða spjald nr. 2 í keppninni, þannig að þeir verða í leikbanni gegn Svíum í lokaleiknum.
Í millitíðinni verður leikinn vináttuleikur við Pólverja ytra, eða 9. október.