Þrjú mörk Króata í síðari hálfleik færðu þeim sigur
Þrjú mörk Króata í síðari hálfleik tryggðu þeim sigur í á Íslendingum í undankeppni HM 2006 á Laugardalsvellinum í kvöld. Íslenska liðinu tókst ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik og voru gestirnir mun sterkari í þeim síðari.
Íslenska liðið lék mjög vel í fyrri hálfleik og leiddu verðskuldað þegar flautað var til leikhlés. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði um miðjan fyrri hálfleik eftir laglegan einleik, hans 16. mark í 38 leikjum fyrir landsliðið og vantar hann nú aðeins eitt mark til að jafna markamet Ríkharðs Jónssonar, sem skoraði 17 mörk í 33 leikjum á árunum 1947 til 1965.
Með smá heppni hefðu mörkin getað verið fleiri. Eiður Smári átti gott skot úr aukaspyrnu sem markvörður Króata varði vel, og hann bjargaði aftur þegar langskot Stefáns Gíslasonar stefndi neðst í markhornið.
Allt annað var að sjá til liðanna í síðari hálfleik. Gestirnir voru mun meira með boltann og sóttu grimmt. Bosko Balaban skoraði tvisvar með stuttu millibili snemma í síðari hálfleik og Darijo Srna tryggði 3-1 sigur þeirra úr vítaspyrnu þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum.
Með sigrinum komust Króatar aftur á topp riðilsins, en Svíar náði efsta sætinu um stund með sigri á Búlgörum fyrr í dag. Íslendingar eru sem fyrr í 5. sæti, með 4 stig eftir átta leiki.
Næsti leikur íslenska liðsins verður á miðvikudag í Sofia, þar sem mótherjarnir verða Búlgarar.