Frábær úrslit á útivelli gegn sterku liði Svía
A landslið kvenna náði í dag frábærum úrslitum á útivelli gegn sterku landsliði Svía í undankeppni HM 2007. Niðurstaðan í Karlskoga varð 2-2 jafntefli og er íslenska liðið á toppi riðilsins eftir tvo leiki.
Svíar komust tvisvar sinnum yfir í leiknum en íslenska liðið jafnaði í bæði skiptin af miklu harðfylgi með mörkum frá fyrirliðanum Ásthildi Helgadóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur.
Sænska liðið var sterkara lengst af en okkar stúlkur vörðust af mikilli hörku og uppskáru stig sem gæti reynst gríðarlega mikilvægt í riðlinum þegar upp er staðið.
Þetta er í fyrsta sinn sem Svíar vinna ekki viðureign við Ísland í A landsliðum kvenna og fyrir þennan leik hafði Ísland aðeins skorað eitt mark í sex leikjum gegn sænska liðinu.
Byrjunarlið Íslands í leiknum
Efri röð frá vinstri: Ásthildur Helgadóttir, Laufey Ólafsdóttir, Dóra Stefánsdóttir, Guðlaug Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Erla Hendriksdóttir.
Neðri röð frá vinstri: Margrét Lára Viðarsdóttir, Þóra B. Helgadóttir, Dóra María Lárusdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir og Edda Garðarsdóttir.