Svíar með eitt af bestu kvennalandsliðum heims
Sænska kvennalandsliðið, sem Ísland mætir í undankeppni HM 2007 á sunnudag, er á meðal þeirra sterkustu í heiminum í dag.
Svíar töpuðu naumlega í framlengingu gegn Norðmönnum í undanúrslitum í úrslitakeppni EM, sem fram fór á Englandi fyrr á árinu, léku til úrslita gegn Þjóðverjum á HM 2003 og eru í 6. sæti á styrkleikalista FIFA fyrir kvennalandslið, sem gefinn er út þrisvar sinnum á ári.
Hanna Ljungberg (ekki skyld Freddie), sem skoraði bæði mörk Svía gegn Norðmönnum í undanúrslitaleiknum á EM, er ein af bestu leikmönnum heims í dag og verður væntanlega með gegn Íslendingum á sunnudag. Ljóst er að íslenska liðið verður að hafa góðar gætur á Ljungberg í leiknum.